Firðir og grunnsævi
Nytjar

Nytjar

Ýmsar nytjar hafa farið fram í Tálknafirði. Má þar nefna fiskveiðar á mörgum tegundum nytjafiska, með margvíslegum veiðarfærum. Veiðar á botndýrum hafa verið reyndar og má þar nefna skelveiðar einkum á kúfskel. Fiskeldi í smáum stíl hefur verið reynt í firðinum lengi en frá árinu 2010 hefur allmikið laxeldi verið stundað þar. Nytjar á botnþörungum hafa verið stundaðar frá ómunatíð.


Veiðar

Fiskveiðar

Í Tálknafirði hefur verið veitt með flestum veiðarfærum en hér eru settar fram upplýsingar um veiðar á nytjategundum í þrjú veiðarfæri (1. mynd). Heildarafli hefur verið rúmlega 1000  tonn á tímabilinu 2000 til 2014 ef miðað er við upplýsingar úr gagnasafni Hafrannsóknastofnunar. Mest hefur fengist af ýsu í firðinum á þessu tímabili um tæp 500 tonn en næstmest af þorski. Af steinbít hefur fengist um 60 tonn en af öðrum tegundum hefur fengist mun minna. Mestur afli hefur fengist í dragnót og línu (1. mynd) en mun minna í handfæri og þá aðallega þorskur.


1. mynd. Afli í Tálknafirði eftir fisktegundum og veiðarfærum.

Gerð var samantekt á skiptingu afla milli tegunda í Tálknafirði á tímabilinu 2000 til 2014 og kom þá í ljós að aflahlutfall ýsu og  þorsks er svipuð eða 43 %, af steinbít 7 %  en af öðrum tegundum er afli langt innan við 5 % (2. mynd).


2. mynd. Hlutfallslegur afli mismunandi tegunda án tillits til veiðarfæra.


 

Eldi

Fiskeldi

Fjarðarlax ehf hefur stundað laxeldi í Tálknafirði frá árinu 2010. Félagið hefur leyfi til að rækta 1500 tonn af laxi á ári í firðinum á nokkrum aðskildum stöðum. Það hyggur nú á stækkun eldisins um 7000 tonn á ári samanlagt í Patreksfirði og Tálknafirði.

Fyrirtækið Þóroddur hf hefur stundað áframeldi á þorski í Tálknafirði um langan tíma.

Dýrfiskur ehf er fyrirtæki sem hyggur á eldi á regnbogasilungi í Patreksfirði og Tálknafirði með allt að 4000 tonna framleiðslu á ári.

Botnþörungar


Efni í vinnslu

Botndýr

Stofnstærðarmat kúfskelja í Tálknafirði


 l

1. mynd. Kúfskel. Mynd Sigurgeir Sigurjónsson

Kúfskel (Arctica islandica) (1. mynd) finnst nánast allt í kringum Ísland og lifir á 0-200 m dýpi í sendnum leirbotni, sandbotni eða skeljasandbotni. Skelin sem lifir niðurgrafin í sjávarbotninum allt frá því að vera rétt undir yfirborði og niður á 15 cm, er staðbundin en getur hreyft sig upp og niður í bontlaginu með hjálp fótarins. Kúflskelin er sérlega langlíf og hægvaxta dýrategund og getur orðið yfir 400 ára gömul. Skeljarnar eru sérkynja. Veiðar á kúfskel til beitu hafa verið stundaðar á Íslandi frá aldamótunum 1900 en tilraunaveiðar til manneldis hófust fyrst 1987 og svo aftur árið 1995 til útflutnings og var hámarks landaður afli rúm 14000 tonn árið 2003.

2. mynd. Vatnsþrýstiplógur


Snemma árs 1994 hófust rannsóknir á vegum Hafrannsóknastofnunar á kúfskel  við Vestfirði með það markmið að kortleggja útbreiðslu, magn á flatareiningu og stofnstærð í fjörðunum með nýtingu í huga. Einnig voru skeljar úr afla lengdarmældar. Til rannsóknanna var notaður skelveiðibátur útbúinn vatnsþrýstiplógi (2. mynd). Þess ber að geta að vatnsþrýstiplógurinn veiðir aðallega skeljar stærri en 50 mm og eykst veiðigetan eftir því sem skelin er stærri.


             

2. mynd. Rannsóknasvæðið í Tálknafirði.             3. mynd. Lengdardreifing kúfskelja í afla vatnsþrýstiplógs í Tálknafirði.

Í Tálknafirði vor tekin 12 tog á 1,4 ferkílómetra svæði og var lífþyngdin að meðaltali 2,1 kg/m2 (2. mynd). Punktarnir á myndinni tákna staðsetningu toga og stærð þeirra lífþyngdina (0-5 kg/m2). Stofnstærð var áætluð rúm 3200 tonn á svæðinu. Meðallengdin í afla var 74 mm og lengdardreifingin 48-102 mm (3. mynd).


Heimildir

Gudrún G. Þórarinsdóttir & Sólmundur Einarsson, 1994. Kúfskeljarannsókn (Arctica islandica) á Norðvesturlandi janúar til mars 1994 (Investigation of Arctica islandica in Northwest Iceland, January-March 1994).  Hafrannsóknastofnunin, 29 pp.

Gudrún G. Þórarinsdóttir & Sólmundur Einarsson, 1997. Kúfskel við Ísland.  Náttúrufræðingurinn, 66 (2), 91-100. 

G. G. Thórarinsdóttir & S. Einarsson, 1996. Distribution and abundance of ocean quahog, Arctica islandica (Linnaeus, 1767), from Icelandic waters.  J. Shellf. Res. 15 (3), 729-733. 

Útlit síðu:

imgban