Firðir og grunnsævi
Líf

Líf

Í Patreksfirði og Tálknafirði fóru fram miklar rannsóknir á grunnþáttum sjávar í firðinum á árunum 2008-2009. Safnað var gögnum um strauma, hita, seltu, næringarefni (sjá undir liðnum Sjór) og svifþörunga. Gögnum var safnað á 6 stöðvum í Patreksfirði og 4 stöðvum í Tálknafirði (sjá mynd). Til viðbótar var safnað gögnum um marglyttu í fjörðunum og gerð ítarleg úttekt á botndýrum. Áður hafa verið gerðar allnokkrar rannsóknir á skeldýrum í fjörðunum með nýtingu í huga og ýmsar fiskifræðilegar rannsóknir.

Botndýr

Í Tálknafirði hafa verið gerðar umfangsmiklar rannsóknir á botndýralífi á vegum Hafrannsóknastofnunar með tilstyrk Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða og fleiri aðila. Var þar einkum haft í huga fyrirhugað fiskeldi í Patreksfirði og Tálknafirði sem þá var í undirbúningi. Hafrannsóknastofnunin var fengin af Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða, Atvest, til að framkvæma rannsóknina en hún var hluti af stærra verkefni í fjörðunum þar sem gerðar voru ýmsar rannsóknir á eðlis-, efna- og líffræðilegum þáttum fjarðanna.

1. mynd. Sýnatökustaðir í Tálknafirði og Patreksfirði.

Dagana 13. og 14. maí 2009 fór fram söfnun botndýra í Tálknafirði og voru sýni voru tekin með Shipek botngreip á 9 stöðvum (1. mynd) og á hverri stöð voru tekin 3 greiparsýni. Úr einu greiparsýni á hverri stöð voru tekin hlutsýni til kornastærðargreiningar.

Úrvinnsla hefur farið fram á stöðvum 1-5 (tafla 2). Alls hafa verið greindar 96 tegundir/hópar frá þessum stöðvum.  Þessi dýr tilheyrðu að mestu fylkingum burstorma, krabbadýra og lindýra (2. mynd). Afar fáar tegundir tilheyrðu öðrum hópum og meðal annars voru skrápdýr einungis greind í þrjár tegundir slöngustjarna og flest dýr sem tilheyrðu lindýrum voru samlokur.

 

Algengustu tegundir

Í töflunni hér til hliðar má sjá hlutfall tíu algengustu tegunda/hópa í Tálknafirði. Þar kemur einnig fram heildarfjöldi dýra á fimm stöðvum og hlutfall þeirra af heild, meðalfjöldi og staðalfrávik. Tegundir sem tilheyra hóp burstaorma eru einkenndir með (b), þær sem tilheyra samlokum eru einkenndar með (s) og krabbadýr með (k).

Leirbotn var á stöðvum 1, 2 og 5.  Tegundasamsetning botndýra milli þessara stöðva var mjög lík og myndar ákveðið botndýrasamfélag.  Burstaormurinn Galathowenia oculata var algengasta tegundin.  Þessi ormur er algengur víða um land og étur lífrænar leifar af botninum. Aðrar algengar tegundir voru samlokurnar gljáhytla og trönusystir og burstaormurinn Cossura longocirrata.         

2. mynd. Fjöldi eintaka (y-ás) af helstu botndýrahópum á hverri stöð (x-ás)

Sandur var á stöðvum 3 og 4. Tegundasamsetning var ólík milli þessara stöðva og einkennandi var hversu fjölbreytt lífríkið var en fá eintök af hverri tegund.

Á sandbotni innarlega í firðinum norðanverðum (stöð 3) voru götungar, skelkrabbar, þráðormar, mosadýr, ranaormar og hveldýr áberandi. Burstaormarnir Scoloplos armiger og Phloe sp. og krabbadýrin Eudorellopsis deformis og Protomedeia faciata voru einnig þar.

Á sandbotni utar í firðinum norðanverðum (stöð 4) voru götungar ríkjandi. Fjórar tegundir burstaorma(Phloe sp., Galathowenia oculata, Spionidae sp. og Nothria conchylega) og tvær samlokutegundir auðnuskel (Crenella decussata) og pétursskel (Parvicardium pinnulatum) voru einnig áberandi.

Fjölbreytileiki (Shannon H‘ loge) var meiri á sandbotni en á leirbotni og var mestur á stöð 4 með 3,08 og stöð 3 með 2,95 en minnstur (1,82) á stöð 2.

Heimildir

Skýrsla um þessar rannsóknir eftir Steinunni Hilmu Ólafsdóttur sérfræðing á Hafrannsóknastofnun er væntanleg í ritröðinni Hafrannsóknir. 

 

 

Botnþörungar

Efni í vinnslu

Fjörudýr


Efni í vinnslu

Svifþörungar

Stöðvakort

Rannsóknir á svifþörungum fóru fram í Tálknafirði á árunum 2008 til 2009 sem Hafsteinn G. Guðfinnsson annaðist og gerði hann þessa samantekt sem sjá má hér fyrir neðan. Safnað var gögnum um svifþörunga á 4 stöðvum í firðinum (sjá stöðvarkort). Mælingar voru gerðar á blaðgrænu-a sem mælikvarða á magn svifþörunga í sjó en einnig var safnað sýnum til greininga og talninga á svifþörungum. Þá var mælt sjóndýpi á hverri rannsóknastöð.

Sjóndýpi gefur upplýsingar um hvort mikið eða lítið svif og/eða grugg er í sjónum. Þar geta átt í hlut svifþörungar (algengast), dýrasvif, annað svif, grugg og fleira sem dregur úr skyggni í sjónum. Mælingin fer fram með hvítri 30 cm skífu sem rennt er niður í sjóinn á bandi sem er með metramerkjum og má lesa af því hve margir metrar eru farnir í sjó. Þegar skífan hverfur sjónum er lesið af kvarða bandsins og segir talan til um  sjóndýpið í metrum á hverjum stað.

Sjóndýpismælingar á stöð T3 og fleiri stöðvum sýndu að 1% ljósdýpi var iðulega á  20 til 30 m dýpi frá vori til hausts en þegar ljós er meira en 1% af því ljósi sem berst yfirborðinu er talið að svifþörungar framleiði meira af lífrænu efni en þeir eyða. Þetta þýðir að í vorblómanum og yfir sumarið vaxa svifþörungar frá yfirborði niður undir 30 m dýpi í firðinum og framleiða lífrænt efni . Þetta er mjög mikilvægt fyrir frumframleiðslu fjarðarins.

 

Magn blaðgrænu Tálknafirði Magn blaðgrænu á stöð 3 í Tálknafirði frá apríl 2008 til apríl 2009.

Ársferlar blaðgrænu í 0, 10, 20 og 40 metra dýpi á stöð T3 frá apríl 2008 til apríl 2009 eru sýndir á mynd hér til hliðar. Niðurstöðurnar sýna að blaðgrænu ferlarnir fyrir öll dýpi eru mjög svipaðir yfir vaxtartímann ef undan er skilin blaðgræna í yfirborði (0m) sem hefur mun lægri vorgildi árið 2008 en neðri dýpin. Þetta skýrist sennilega af því að yfirborðssjórinn blandast ferskvatni á vorin sem er næringarsnautt og þynnir út þau næringarefni sem eru til staðar í yfirborðslagi sjávar þannig að vöxtur svifþörunga verður takmarkaðri en neðar í sjónum. Þegar líður á sumarið og áhrif ferskvatnsins minnka verður gróðurinn álíka mikill við yfirborð og í neðri dýpum. Skýrt kemur fram á myndinni að svifþörungarnir mynda marga gróðurtoppa yfir sumarið. Í apríl 2009 hefst gróðurhámark á öllum dýpum samtímis.

Fjöldi kísil- og skoruþörunga á T3 Fjöldi kísil- og skoruþörunga á T3 í Tálknafirði frá apríl 2008 til apríl 2009

Ársferill kísilþörunga og skoruþörunga í 10 m dýpi er sýndur á mynd hér til hliðar. Kísilþörungar eru að ljúka vorvexti sýnum þegar sýnataka hefst vorið 2008 í apríl og því höfum við misst af aðal vortoppnum. Síðan verður hlé á vexti þeirra nokkurn tíma en í byrjun júní mynda þeir vaxtartoppa sem standa yfir í júní og júli með yfir 400 þúsund frumur í lítra. Að því loknu ber lítið á kísilþörungum þó svolítil aukning verði í september áður en þeir hætta að vaxa vegna takmarkaðrar birtu. Vorið 2009 mynda þeir vaxtartopp í apríl

Skoruþörungar eru til staðar í svifinu allt sumarið og er fjöldi þeirra mjög breytilegur (sjá mynd). Mestur er hann um 150 þúsund frumur í lítra um miðsumarið. Hluti af þessum hópi getur verið  svifþörungar sem valda eitrununum í skelfiski. Þær tegundir eru aðallega af ættkvíslunum Dinophysis og Alexandrium.

Fjöldi Dinophysis og Alexandrium fruma Fjöldi Dinophysis og Alexandrium fruma á 10 m dýpi á stöð T3 í Tálknafirði sumarið 2008

Á myndinni hér til hliðar má sjá breytingar sem urðu í fjölda þessara tveggja ættkvísla sumarið 2008. Fjöldi Dinophysis tegunda er mestur á tímabilinu júlí til ágúst en þá er frumufjöldi þeirra frá 700 til 1600 frumur í lítra.  Fjöldi Alexandrium tegunda er mestur í júní um 100 frumur í lítra en annars mjög lítill. Fjöldi beggja hópa fer yfir þau viðmiðunarmörk sem notuð eru þegar metin er hætta á eitrunum í skelfiski.

Nánari upplýsingar um eitraða svifþörunga má sjá á vefsíðunni http://www.hafro.is/voktun/

Svifdýr

Hveljur

(Úr grein Guðjóns Más Sigurðssonar og fleiri 2009 (sjá nánar á  hlekk  http://www.hafro.is/Bokasafn/Timarit/fjolrit-152.pdf)

 

 

Stöðvakort hveljur Kort sem sýnir sýnatökustöðvarnar í Patreksfirði og Tálknafirði.

Hlaupkennt dýrasvif er fjölbreyttur hópur dýra sem inniheldur smáhveljur (Hydrozoa), marglyttur (Scyphozoa) og kambhveljur (Ctenophora), en stundum eru sviflæg möttuldýr (Larvacea) og pílormar (Chaetognata) einnig talin með í þessum hópi (Hosia 2007). Mörg dýrsem eru í þessum hópi hafa tiltölulega stuttan kynslóðatíma, hraðan vöxt og eru því oft á tíðum öflug rándýr á svifi í uppsjónum.

 

Sýnin voru tekin í Patreksfirði og Tálknafirði frá apríl til september 2008, og var farið einu sinni í hverjum mánuði nema í maí þegar farið var tvisvar. Tvær sýnatökustöðvar voru í Tálknafirði, en þrjár í Patreksfirði (sjá kort). Sýnin voru tekin með Bongóháfi en bongóháfur er í raun tveir háfar sem festir eru saman og er hver háfur 60 cm í þvermál, 250 cm langur og möskvastærðin var 500 μm. V-laga sökka eða vængur var fest neðst á háfinn til að draga hann niður og halda honum stöðugum

Patroleiðangur3Rannsóknir með bongoháf í Patreksfirði. Ljósmynd Hafsteinn G. Guðfinnsson.

í togunum. Á hverri stöð var háfurinn dreginn á u.þ.b. 10 metra dýpi í 10 mínútur á 3 sjómílna hraða. Magn sjávar sem fór í gegnum háfinn var mælt með Hydro-bios flæðismæli sem festur var í opið á öðrum háfnum. Allt hlaupkennt dýrasvif sem kom í háfinn var varðveitt í 10% formalíni til greiningar. Auk þess var þvermál allra marglyttna (Scyphozoa) mælt. Út frá rúmmáli sjávar sem háfurinn síaði voru allar fjöldatölur.

 


Ellefu flokkunareiningar af smáhveljum (Hydrozoa), ein tegund kambhvelja (Ctenophora) og tvær marglyttutegundir (Scyphozoa) fundust í Tálknafirði og Patreksfirði í apríl til september 2008. Algengasta smáhveljan var Clytia sp. en mjög erfitt er að greina þessa ættkvísl niður til tegunda og því er hún ekki greind frekar. Hér er þó að öllum líkindum um að ræða tegundina Clytia hemisphaerica sem finnst víða á nálægum hafsvæðum. Algengasta marglyttutegundin var bláglytta (Aurelia aurita) en aðeins ein tegund af kambhveljum fannst, Beroë cucumis.

 Í apríl fannst lítið af hveljum og aðeins tvær tegundir (Bouganvillea superciliaris og Leuckartiara octona). Í byrjun maí fjölgaði hlaupkenndu dýrasvifi talsvert og átta tegundir fundust, aðallega Podocoryne borealis sem var algengasta tegundin, en þar á eftir kom smáhveljan Sarsia tubulosa og bláglyttan (Aurelia aurita). Um miðjan maí hafði magnið meira en tífaldast og tvær tegundir til viðbótar fundust, smáhveljurnar Staurophora mertensii og Obelia sp.Súlurit hveljur Magn hlaupkennds dýrasvifs í Patreksfirði og Tálknafirði í apríl til september 2008. Bláu súlurnar tákna smáhveljur (Hydrozoa), svörtu marglyttur (Scyphozoa) og gulu kambhveljur (Ctenophora).

Hámarki var náð í hveljumagni í júní þegar tólf tegundir fundust. Færri fundust í júlí og ágúst en fjöldinn jókst aftur í september þegar næstmest fannst. Þegar á heildina er litið var Clytia sp. algengasta tegundin (72.2 % af öllu hlaupkenndu dýrasvifi yfir sumarið. Aðrar algengar tegundir voru bláglytta, Eutonia indicans, Obelia sp., Podocoryne borealis og Sarsia tubulosa.Fiskar

Efni í vinnslu

Fuglar

Efni í vinnslu

Spendýr

Efni í vinnslu


 

Útlit síðu:

imgban