Firðir og grunnsævi
Líf

Líf

Efni í vinnslu

Botndýr

Stofnstærðarmat kúfskelja í Önundarfirði byggt á neðansjávarmyndatökum

 

Mynd 1. Kúfskeljaop sýnileg í sjávarbotni.

Í Önundarfirði fór fram stofnstærðarmat kúfskelja á vegum Hafrannsóknastofnunar í júlí 1999 sem byggt var á botnmyndatökum. Myndað var á tveimur svæðum (I og II) sem valin voru með hliðsjón af stofnstærðarmælingum sem fram fóru árið 1994. Alls voru teknar 400 myndir og öll dýr sem sáust á myndunum voru greind og talin og fjöldinn umreiknaður á fermetra. Fjöldi skelja var umreiknaður í lífþyngd (kg/m2)  og var stuðst við meðalþyngd skelja er veiðst höfðu með vatnsþrýstiplógi á svæðunum. Að auki var setgerð metin af myndunum. Misjafnt er eftir árstímum hversu langt niðri í botnlaginu skelin liggur. Yfir vetrartímann er ekki óvanalegt að skeljarnar dvelji allt niður á 15 cm og eru þá lokaðar, anda loftfirrðri öndun og engin op eru sýnilega á sjávarbotninum.

                           

  Kúfskeljaopin voru talin af myndunum og reiknaður út fjöldi þeirra á fermetra. Meðalfjöldi kúfskelja var 58/m2 (6,8 kg/m2) á svæði I og 37/m2 (5,2 kg/m2) á svæði II. Marktækur munur var í fjölda kúfskelja á milli setgerða. Kúfskel var algengust í fínum (61/m2) og milligrófum sandi (43/m2) en minnst af henni í grófum sandi (24/m2) (2. 3. og 4. mynd). Einu dýrin sem sáust í einhverju magni fyrir utan kúfskelina voru slöngustjörnur á svæði II (47/m2) (5. mynd).  

2. mynd. Fjöldi kúfskelja á m2 í mismunandi botngerð á svæði I í Önundarfirði.

3. mynd. Fjöldi kúfskelja á m2 í mismunandi botngerð á svæði II í Önundarfirði.
4. mynd. Fjöldi kúfskelja á m2 í mismunandi botngerð í Önundarfirði (svæði I+II).


Þéttleiki (lífþyngd) kúfskelja var einnig metinn með vatnsþrýstiplógi og var 1,8 kg/m2 en var 3,5 kg/m2 árið 1994. Að hluta til má rekja þennan mun til mikillar kúfskeljaveiði í firðinum á tímabilinu og fækkunar skelja þess vegna.

Lífþyngd kúfskelja byggð á afla úr plógsýni (1,8 kg/m2) gaf aðeins 26% af lífþyngd byggðri á talningu skelja af botnmyndum (6,8 kg/m2) á svæði I en skýringin gæti legið í ofmati á veiðihæfni plógsins og því að plógurinn veiðir lítið af skeljum sem eru minni en 60 mm á lengd. Þessar skeljar koma fram á myndunum og eru að öllum líkindum léttari en meðalskel úr plógi.

 

5. mynd. Fjöldi slöngustjarna á m2

á mismunandi botngerð á svæði I í Önundarfirði.


Breytileiki í fjölda skelja á svæði I og II var mikill og var munur á fjölda skelja á milli nærliggjandi mynda oft mjög mikill. Ástæður þessarar miklu hnappdreifingar kúfskelja geta verið margvíslegar til dæmis setgerð. Veiðiálag með plógi er líklega blettótt, sum svæði eru undir meira veiðiálagi en önnur, sem einnig gæti útskýrt mikla hnappdreifingu.


Heimild

Kúfskeljarannsóknir í Önundarfirði í júlí 1999. Guðrún G. Þórarinsdóttir og Stefán Áki Ragnarsson. Skýrsla 13 bls.


Stofnstærðarmat kúfskelja í Önundarfirði

Kúfskel (Arctica islandica) (1. mynd) finnst nánast allt í kringum Ísland og lifir á 0-200 m dýpi í sendnum leirbotni, sandbotni eða skeljasandbotni. Skelin sem lifir niðurgrafin í sjávarbotninum allt frá því að vera rétt undir yfirborði og niður á 15 cm, er staðbundin en getur hreyft sig upp og niður í botnlaginu með hjálp fótarins. Kúfskelin er sérlega langlíf og hægvaxta dýrategund og getur orðið yfir 400 ára gömul. Skeljarnar eru sérkynja. Veiðar á kúfskel til beitu hafa verið stundaðar á Íslandi frá aldamótunum 1900 en tilraunaveiðar til manneldis hófust fyrst 1987 og svo aftur árið 1995 til útflutnings og var hámarks landaður afli rúm 14000 tonn árið 2003.
                                                                                                                                                                                                                                                                                                                1. mynd. Kúfskel (Arctica islandica).
                                                                                                                                                           Ljósmynd: Guðrún G. Þórarinsdóttir


Snemma árs 1994 hófust rannsóknir á vegum Hafrannsóknastofnunar á kúfskel (1. mynd) við Vestfirði með það markmið að kortleggja útbreiðslu, magn á flatareiningu og stofnstærð í fjörðunum með nýtingu í huga. Einnig voru skeljar úr afla lengdarmældar og vigtaðar. Til rannsóknanna var notaður skelveiðibátur útbúinn vatnsþrýstiplógi (2. mynd).

Í Önundarfirði vor tekin 14 tog á 5 ferkílómetra svæði og var lífþyngdin að meðaltali 3.9 kg/m2 (3. mynd). Stofnstærð var áætluð um 19 000 tonn á svæðinu. Meðallengd í afla var 76 mm og lengdardreifingin frá 39-96 mm (4. mynd). Meðalþyngd skeljanna var 118 gr og holdfyllingin 30%.

Þess ber að geta að vatnsþrýstiplógurinn veiðir aðallega skeljar stærri en 50 mm og eykst veiðigetan eftir því sem skelin er stærri.

                                                                                                                    2. mynd. Vatnsþrýstiplógur. Ljósmynd Guðrún G. Þórarinsdóttir


3. mynd. Rannsóknarsvæðið í Önundarfirði. Punktarnir tákna togin en liturinn magnið (kg/5 mín tog), rautt= >1000 kg; gult= 500-1000kg; grænt = 100-500kg og blátt = 10-100 kg.


4.mynd. Lengdardreifing kúfskelja í afla vatnsþrýstiplógs í Önundarfirði.

Heimildir

Gudrún G. Þórarinsdóttir & Sólmundur Einarsson, 1994. Kúfskeljarannsókn (Arctica islandica) á Norðvesturlandi janúar til mars 1994 (Investigation of Arctica islandica in Northwest Iceland, January-March 1994).  Hafrannsóknastofnunin, 29 pp.

Gudrún G. Þórarinsdóttir & Sólmundur Einarsson, 1997. Kúfskel við Ísland.  Náttúrufræðingurinn, 66 (2), 91-100. 

G. G. Thórarinsdóttir & S. Einarsson, 1996. Distribution and abundance of ocean quahog, Arctica islandica (Linnaeus, 1767), from Icelandic waters.  J. Shellf. Res. 15 (3), 729-733.

Botnþörungar

Efni í vinnslu

Fjörudýr


Efni í vinnslu

Svifþörungar

Vegna fyrirhugaðs útflutnings á kúfiski til Bandaríkjanna árið 1994, voru gerðar viðamiklar rannsóknir á veiðisvæðum kúfisks samkvæmt kröfum bandarískra yfirvalda. Meðal rannsóknaþátta voru rannsóknir á svifþörungum og umhverfi þeirra.

     1. mynd. Stöðvakort sem sýnir söfnunarstaði í Önundarfirði (ÖN), Aðalvík (AL) og Fljótavík (FL).

Frá 28. mars til októberloka árið 1994 var yfirborðssýnum safnað vikulega á þremur stöðum þ.e. í Önundarfirði, í Aðalvík og í Fljótavík (1. mynd). Háfsýni (20µm) og talningarsýni vegna svifþörunga voru tekin úr yfirborði sjávar. Einnig var mæld blaðgræna svifþörunga sem mælikvarði á magn þeirra, og selta, hiti og næringarefni í yfirborðsjó. Eitt af markmiðum rannsóknanna var að kanna tilvist svifþörunga sem hugsanlega geta framleitt eiturefnin PSP (Paralytic shellfish poison) sem er hættulegt taugaeitur og skoruþörungar af ættinni Alexandrium geta framleitt, DSP (Diarrheic shellfish poison) sem veldur magaeitrun og skoruþörungar af ættinni Dinophysis geta framleitt og að lokum ASP (Amnesic shellfish poison) sem er einnig taugaeitur og getur m.a. valdið minnisleysi en kísilþörungar af ættinni Pseudonitzschia geta framleitt þetta eitur. Mánaðarlega var safnað sýnum úr kúfiskafla til að kanna hvort þessi eiturefni væru mælanleg í skelfiski en mælingin var framkvæmd af Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins. Hér verður greint frá þætti svifþörunga í Önundarfirði í rannsókninni.

2. mynd. Magn blaðgrænu í sjó í Önundarfirði 1994.

Í lok mars var þegar kominn nokkur gróður í Önundarfirði en vorhámark svifþörunga varð í lok apríl en þá varð magn blaðgrænu meira en 4 mg m-3. (2. mynd). Að loknu vorhámarki féll magn blaðgrænu og var mjög lágt (<1 mg m-3) í maí og júní. Frá og með júlí voru blaðgrænugildi hærri en 2 mg m-3 og fóru vaxandi fram á haust og náðu hæst um 4 mg m-3 af blaðgrænu en magn hennar minnkaði hratt eftir miðjan október.

Algengustu svifþörungategundir í vorgróðrinum voru kísilþörungarnir Thalassiosira gravida, Th. nordenskioeldii og Chaetoceros socialis en einnig var Phaeocystis pouchetii (Prymnesiophyceae) algengur. Í þeim gróðurtoppum sem fylgdu er leið á sumarið bar fyrst mest á Leptocylindrus minimus, síðan Skeletonema costatum og að lokum Pseudonitzschia pseudodelicatissima, allt kísilþörungategundir. Kísilþörungar voru ríkjandi hópur svifþörunga frá vori til hausts (3. mynd). Aðrir hópar náðu samtals mest að verða 15% af heildar frumufjölda svifþörunga.

          3. mynd. Fjöldi kísilþörunga í sjó í Önundarfirði 1994.

Svifþörungategundir sem geta myndað eiturefnin PSP, DSP og ASP fundust í Önundarfirði. Alexandrium spp (A. tamarense og A. ostenfeldii) sem getur valdið PSP eitrun í skelfiski fannst fyrst í maí 1994 en var síðan viðvarandi frá júní til júlí og síðan einu sinni seint í ágúst (4. mynd). Frá 15. júní til júníloka fundust fleiri en 100 frumur í lítra af sjó en flestar frumur fundust í fyrstu viku júlí 760 frumur í lítra af sjó. Þetta er langt yfir þeim viðmiðunarmörkum sem notuð eru í dag (2014) varðandi hættu á PSP eitri í skelfiski vegna Alexandrium tegunda (sjá http://www.hafro.is/voktun/vidmid.htm). Mælingar á PSP í kúfiski í rannsókninni 1994 voru þó alltaf undir hættumörkum.

     4. mynd. Fjöldi (frumur í lítra) Alexandrium tegunda (svartar súlur) og fjöldi Dinophysis tegunda (gráar súlur) í Önundarfirði 1994.

Dinophysistegundir (aðallega D. acuminata, en einnig fundust D. norvegica, D. acuta og D. rotundata) fundust í Önundarfirði frá því seint í júlí 1994 til nóvember (4. mynd).  Mestur fjöldi fannst af Dinophysis í ágúst allt að 500 frumur í lítra en einnig var nokkuð af þeim í september og október. Fjöldi Dinophysis tegunda fór aldrei yfir þau viðmiðunarmörk sem notuð eru á árinu 2014 (sjá http://www.hafro.is/voktun/vidmid.htm) en var alveg á mörkunum í ágúst.

Pseudonitzschia pseudodelicatissima (kísilþörungur) fannst í Önundarfirði frá seinni hluta júní 1994 til loka sýnatöku í byrjun nóvember sama ár. Mestur fjöldi fannst í ágúst en þá var fjöldi þeirra frá hundruðum þúsunda fruma í lítra upp í meira en 5 milljónir frumur í lítra af sjó sem er langt yfir þeim viðmiðunarmörkum sem notuð eru dag (2014) varðandi hættu á ASP eitrun í skel (sjá http://www.hafro.is/voktun/vidmid.htm).

Heimildir

Þórunn Þórðardóttir og Agnes Eydal 1994. Phytoplankton at the Ocean Quahog Harvesting Areas Off the Southwest Coast of Iceland 1994. Svifþörungar á kúfiskmiðum út af norðvesturströnd Íslands 1994. Hafrannsóknastofnun. Fjölrit, 51, 28 s. http://www.hafro.is/Bokasafn/Timarit/fjolrit-051.pdf


Svifdýr

Efni í vinnslu

Fiskar

Skarkolaseiði í Önundarfirði


 

Skarkolinn er mikilvægur nytjafiskur og mjög algengur á grunnslóð allt í kringum landið. Í júlí 2006 var farinn leiðangur hringinn í kringum landið og sýni tekin á 32 stöðvum með litlu trolli (1. mynd) sem dregið var í sandfjörum með handafli af tveimur mönnum (2. mynd). Trollið er bjálkatroll sem er nokkurskonar botntroll. Það er spennt á álramma sem situr á meiðum, 1 m á breidd og 20 cm á hæð, og er það dregið með handafli í fjöruborðinu á u.þ.b. 1 m dýpi eða af slöngubát á dýpra vatni. Leitast var við að dreifa sýnasöfnun þannig að á sem stystum tíma fengist heildstæð mynd af fjölda og lengdardreifingu skarkolaseiða allt í kringum landið.

                             1. mynd. Skarkolaseiðatroll.                2. mynd. Trollið dregið.                          3. mynd. Nýklakið skarkolaseiði.

Tilgangur rannsóknanna sem hér er greint frá var að auka skilning á uppruna skarkolaseiða við Ísland (3. mynd). Til þess var útbreiðsla, aldur og vöxtur seiða við landið kannaður og í framhaldinu er ætlunin að tengja þessa þætti við upplýsingar um strauma og rekhraða og þannig áætla frá hvaða svæðum seiðin eru (sjá Björn Gunnarsson og fl. 2010).

 

Þann 21. júlí 2006 voru tekin þrjú 100 m tog á eyrinni við Holtsbug í miðjum Önundarfirði (66.0275 N - 23.4334 V) og reyndist þéttleiki skarkolaseiða þar vera um 179 einst. á hverja 100 m2 og var meðallengdin um 22.7 mm.


Heimildir: Björn Gunnarsson, Jónas P. Jónasson og Bruce J. McAdam, 2010. Variation in hatch date distributions, settlement and growth of juvenile plaice (Pleuronectes platessa L) in Icelandic waters. Journal of Sea Research 64, 61-67.

                                                                  

Fuglar

Miklar leirur eru innan Holtsodda og er mikið fuglalíf í Önundarfirði. Helstustaðfuglar eru æðarfugl og stokkönd ásamt mávategundum og sendling. Margar tegundir farfugla venja komur sínar í Önundarfjörð enda aðstæður á leirunum góðar
fyrir vaðfugla.

Heimildir

Arnþór Garðarson, Ólafur Karl Nielsen og Agnar Ingólfsson. 1980. Rannsóknir í Önundarfirði og víðar á vestfjörðum 1979: Fuglar og Fjörur. Reykjavík. Líffræðistofnun Háskólans, Fjölrit nr 12.

Spendýr

Efni í vinnslu.


 

Útlit síðu:

imgban