Firðir og grunnsævi
Vestfirðir

Vestfirðir

Vestfirðir eru venjulega skilgreindir sem sá hluti Íslands sem afmarkast af Gilsfirði í vestri og Bitrufirði í austri norðan Hrútafjarðar. Á þessum vef hefur hins vegar verið ákveðið til hægðarauka að telja Vestfirði frá Patreksfirði í vestri að Bitrufirði á Ströndum en firðir sem ganga inn úr norðurhluta Breiðafjarðar eru látnir fylgja Breiðafirði. Vestfjörðum er síðan skipt í minni svæði vegna fjölda þeirra fjarða sem finnast á Vestfjörðum, til þess að koma þeim fyrir á aðgengilegan hátt á vefkortinu (sjá einnig stiku hér til hliðar). Þessi svæði eru Patreksfjörður að Súgandafirði, Ísafjarðardjúp, Jökulfirðir, Hornstrandir og Strandir. Til að staðsetja firðina í lengd og breidd hefur verið valinn einn punktur í hverjum firði og eru hnit gefin fyrir hann sem staðsetning á firðinum. Dýpistölur fjarða eru teknar úr þeim sjókortum sem tiltæk eru.

Vestjarðakjálkinn er byggður upp af jarðlögum frá tertíer tímabilinu. Jöklar ísaldar hafa grafið  sig niður í gegnum berggrunninn og mótað dali og firði. Landslag fjarðanna hefur í stórum dráttum verið fullmótað í lok ísaldar fyrir um 10 þúsund árum. Stærstu og dýpstu firðirnir eru Ísafjarðardjúp, Jökulfirðir og Arnarfjörður. Þar nær sjávardýpi niður fyrir 100 metra og inn af þessum fjörðum greinast minni firðir.

Nákvæmar dýptarmælingar, sem gerðar eru með fjölgeislamæli, sýna hvernig landslagi er háttað á hafsbotninum. Hafrannsóknastofnun hefur gert fjölgeislamælingar í Arnarfirði, Ísafjarðardjúpi og Jökulfjörðum. Það er liður í verkefni stofnunarinnar um Kortlagningu hafsbotnsins. Fjölgeislamælingar í Patreksfirði, Tálknafirði, Dýrafirði og Önundarfirði eru frá Sjómælingasviði Landhelgisgæslunnar.

Straumar liggja til norðurs með Vestfjörðum vestanverðum og er Atlantsjórinn mikilvægastur þátturinn í þeim. Norðvestur af Vestfjörðum klofnar Atlantsstraumurinn í tvo hluta. Stærri greinin sveigir til vesturs og síðar suðurs inn í Irmingerhafið. Minni greinin sveigir tii austurs fyrir norðan Vestfirði. Innflæði Atlantsjávar norður og austur fyrir Vestfirði er mun meira á sumrin en veturna. Innflæði Atlantssjávar er einnig mjög breytilegt hvað magn varðar eftir árum eða lengri tímabilum sem geta staði í fjölda ára.


Patreksfjörður

Mynd Patreksfjörður Patreksfjörður er syðstur þeirra fjarða á Vestfjörðum sem snúa til norðvesturs. Utan við fjörðinn er Patreksfjarðarflói, talsvert grunn þar sem botndýpi er minna en 40 m . Það er um 10 km breitt við Tálkna en utar um 15 km við Blakk sem er í mynni grunnsins. Breidd í mynni Patreksfjarðar er 5,7 km en lengd úr mynni í botn um 21 km en fjörðurinn mjókkar mjög eftir því sem innar dregur.
Lesa meira

Tálknafjörður

Mynd úr Tálknafirði Tálknafjörður er norðan við Patreksfjörð en fjalliðTálkni skilur hann frá Patreksfirði. Utan við fjörðinn er Patreksfjarðarflói talsvert grunn þar sem botndýpi er minna en 40 m. Það er um 10 km breitt við Tálkna en 15 km við Blakk sem er í mynni grunnsins. Breidd í mynni Tálknafjarðar er 4,5 km og lengd fjarðarins15,4 km frá fjarðarmynni í botn..
Lesa meira

Arnarfjörður

Arnarfjörður er einn af syðri fjörðunum vestan til á Vestfjörðum, norðan við Patreksfjörð og Tálknafjörð og opnast til norðvesturs. Hann er mikill fjörður um 9 km á breidd í fjarðarkjaftinum milli Kópanes og Sléttanes en mjókkar er innar dregur og er um 7 km á breidd rétt utan við Bíldudal. Aðalfjörðurinn klofnar við Langanes og heldur hluti hans áfram til austurs endar í Borgarfirði og Dynjandisvogi.
Lesa meira

Dýrafjörður

Dýrafjörður liggur norðan við Patreks- og Tálknafjörð. Þetta er stór fjörður rúmir 9 km í fjarðarmynni milli Hafnarness og Skaga en 6,4 km frá Hafnarnesi í Voga. Hann fer mjókkandi eftir því sem innar dregur og er um 30 km langur frá fjarðarmynni í botn.
Lesa meira

Önundafjörður

Önundarfjörður liggur norðan við Dýrafjörð. Hann er all víður fjörður miðað við lengd, um 6,6 km í fjarðarmynni og um 15 km langur frá fjarðarmynni í botn. Hann fer hægt mjókkandi eftir því sem innar dregur og er tæpir 2 km á breidd í fjarðarbotni. Dýpi í ytri hluta fjarðarins er um 30 m. Flatarmál fjarðarins er um 51 km2.
Lesa meira

Súgandafjörður

Súgandafjörður liggur norðan við Önundarfjörð en sunnan við Ísafjarðardjúp. Hann er fremur lítill fjörður, breiðastur í mynni fjarðarins milli Sauðaness og Galtar um 3,3 km en mjókkar fljótt og er minna en 1 km á breidd þegar komið er inn fyrir Suðureyri.
Lesa meira

Ísafjarðardjúp

Ísafjarðardjúp er einn af stærstu fjörðum Íslands og sá langstærsti á Vestfjörðum. Það er um 75 km langt frá mynni að botni innsta fjarðar, Ísafjarðar. Það er rúmlega 20 km á breidd við mynnið, þar sem það er breiðast, á milli Stigahlíðar að sunnan og Rits en Ritur er ysti höfði Grænuhlíðar að norðan.
Lesa meira

Jökulfirðir

Austur úr Ísafjarðardjúpi utanverðu gengur breiður flói eða fjörður sem fimm firðir kvíslast frá til norðurs austurs og suðurs. Heita þeir einu nafni Jökulfirðir. Þeir voru friðlýstir árið 1975. Jökulfirðir bera nafn með réttu því að tveir þeirra ganga upp undir Drangajökul. Fjöll að þeim eru allhá og brött en undirlendi lítið.
Lesa meira

Hornstrandir

Hornstrandir eru hér skilgreindar frá Ritur sunnan Aðalvíkur að Geirólfsgnúp austan Reykjafjarðar. Þær eru nyrsti hluti Vestfjarðakjálkans. Þær voru friðlýstar árið 1975. Á þessu svæði eru aðallega víkur vestan til en minni firðir er austar dregur. Fjöll ganga víðast snarbrött í sjó fram á þessu svæði og undirlendi er víðast lítil nema í stærstu víkunum vestan til á Hornströndum. Allt svæðið er mjög opið fyrir sjávargangi frá norðvestri til norðausturs en illviðrasamt getur verið á þessum slóðum einkum um vetrartímann. Fólk hefur ekki lengur fasta búsetu á þessum slóðum.
                                            Lesa meira

Strandir

Strandir liggja að vestanverðum Húnaflóa og ná frá Geirólfsgnúpi að norðan að Hrútafjarðará og Holtavörðuheiði að sunnan. Strönd svæðisins er vogskorin með fjölda af fjörðum og víkum. Flestir eru firðirnir stuttir, einkum þó norðan til. Stærstir eru Steingrímsfjörður og Reykjarfjörður. Fram milli fjarða ganga brött fjöll og múlar. Undirlendi er mest upp frá Steingrímsfirði.

Fyrir utan Strandir er misdýpi mikið og fjöldi af skerjum og boðum utarlega og innarlega og eru þeir kallaðir einu nafni  Strandabrekar. Stærsta eyjan er Grímsey í mynni Steingrímsfjarðar. Í illviðrum brýtur oft á blindskerjum langt undan landi, en djúpir og krókóttir álar ganga inn á milli skerjaklasanna. Sigling nærri landi er hér hættuleg fyrir aðra en þá sem nákunnugir eru.

Rekar eru víða miklir á Ströndum sem og æðarvarp og selur og töldust áður til mikilla hlunninda. Selveiði var víða stunduð á árum áður á Ströndum sem og nýting á reka en nú er það helst dúntekja æðarfuglsins sem er nýtt.

Lesa meira


 

Útlit síðu:

imgban