Firðir og grunnsævi
Líf

Líf

Ýmsar rannsóknir hafa farið fram í Ísafjarðardjúpi á vegum Hafrannsóknastofnunar. Má þar geta rækjurannsókna sem hófust fyrir margt löngu síðan og eru enn stundaðar reglulega. Mikil rannsókn var gerð á grunnþáttum lífs og sjávar á árinu 1987 til 1988. Þar voru gerðar mælingar á hita, seltu, næringarefnum, svifþörungum, svifdýrum og sviflægum lirfum fiska og fleiri tegunda. Allmiklar rannsóknir hafa verið gerðar á fiskungviði í Ísafjarðardjúpi en svæðið er alþekkt uppeldissvæði fyrir ýmsar tegundir nytjafiska. Í seinni tíð hafa verið gerðar ýmsar rannsóknir sem tengjast fiskeldi í sjó. Má þar nefna rannsóknir á straumum og fleiri þáttum sem áhrif geta haft á eldisfisk í kvíum en einnig botndýrarannsóknir í einstökum fjörðum og svo stóra botndýrarannsókn í Djúpinu öllu sem Náttúrstofa Vestfjarða stóð fyrir í samstarfi við fleiri aðila (sjá nánar í heimildir fyrir Ísafjarðardjúp).


Botndýr

Botndýr á mjúkum botni í Ísafjarðardjúpi

Markmið verkefnisins var að skilgreina náttúrulegt lífríki á mjúkum botni í Ísafjarðardjúpi og kanna áhrif uppsöfnunar lífrænna efna frá fiskeldi á samfélög botndýra. Notuð voru gögn sem safnað hefur verið við margs konar rannsóknir, svo sem vegna fiskeldis og vegna for- og vöktunarrannsókna í fjörðum, sem gætu verið hentugir fyrir fiskeldi. Skyldleikagreining er notuð til að flokka saman lík samfélög. Hér hefur verið unnin út stuttur útdráttur úr lokaskýrslu verkefnisins.

 

Staðsetning sýnatökustöðva

Botndýrasamfélögum á mjúkum botni í Ísafjarðardjúpi má í meginatriðum skipta í þrjá hópa, út frá skyldleikagreiningu.

Í hópi 1 eru stöðvar innarlega í fjörðum og yfirleitt á grunnu vatni. Þar eru ranaormar (Nemertea) algengastir, en einnig er burstaormaættin Pholoidae nokkuð algeng.

Í hópi 2 eru stöðvar undir mismiklu álagi frá fiskeldi, en þar eru burstaormsættirnar Capitellidae og Cirratulidae, ásamt ranaormum algengastar, en hlutföll þeirra eru misjöfn eftir mengunarálagi.

Í hópi 3 eru stöðvar á frekar djúpu vatni (40-115 m) og undir litlum eða engum áhrifum mannsins. Þar er burstaormsættin Spionidae oftast algengust.

Fjölbreyttast er botndýralífið út af Óshlíð milli Hnífsdals og Bolungarvíkur, en minnst innan þröskulds í Hestfirði, en báðir þessir staðir eru nær eingöngu undir náttúrulegum umhverfisáhrifum

 

Niðurstöðurnar sýna að burstaormurinn Capitella capitata er góður vísir á mikla uppsöfnun lífrænna leifa á botninum, eins og sýnt hefur verið fram á víða erlendis. Hins vegar virðist ekki vera hægt að yfirfæra niðurstöður um aðrar vísitegundir lífrænnar mengunar beint frá öðrum löndum. Burstaorminum Malacoceros fuliginosus hefur t.d. verið lýst sem vísitegund fyrir uppsöfnun lífrænna efna við fiskeldiskvíar í Noregi, en hér finnst hann einungis í takmörkuðu magni eða alls ekki á slíkum stöðum. Einnig kemur á óvart hátt hlutfall ranaorma á svæðum undir lífrænu mengunarálagi í Ísafjarðardjúpi, en þeir hafa einungis lítillega verið tengdir slíkri mengun erlendis.

Heimild: Þorleifur Eiríksson, Ólafur Ögmundarson, Guðmundur V. Helgason og Böðvar Þórisson, 2012. Lokaskýrsla verkefnisins "Íslenskir firðir: Náttúrulegt lífríki Ísafjarðardjúps og þolmörk mengunar" sem styrkt var af Verkefnasjóði Sjávarútvegsins 2009-2012. NV nr. 5-12 eða

www.matis.is/media/matis/utgafa/20-12-Islenskir-firdir-Lokaskyrsla.pdf


Botnþörungar

Efni í vinnslu

Fjörudýr


Efni í vinnslu

Svifþörungar

Árin 1987 og 1988 fóru fram á vegum Hafrannsóknastofnunar rannsóknir í Ísafjarðardjúpi þar sem margir þættir vistkerfisins voru skoðaðir m.a. við vöxtur og viðgangur plöntusvifs. Farnir voru 13 rannsóknaleiðangrar með u.þ.b. mánaðar millibili og teknar sýni á 24 stöðvum bæði í Ísafjarðardjúpi og Jökulfjörðum (1. mynd). 

1. mynd. Rannsóknastöðvar í Ísafjarðardjúpi og Jökulfjörðum

1987 til 1988


Vetrarástand ríkti í firðinum frá því í febrúar 1987 og fram í apríl. Þá var sjór uppblandaður og einsleitur og mjög lítið af blaðgrænu enda ljós takmarkandi þáttur fyrir vöxt svifþörunga.

2. mynd sýnir ársferil blaðgrænu með dýpi á stöð 10, sem er í miðju Ísafjarðardjúpi á móts við Skutulsfjörð (1. mynd). Snemma í apríl hófst vorblómi svifþörunga. Seinni hluta apríl og fram í miðjan maí var lífmassi (blaðgræna) þörunganna mestur (8-10 mg m-3). Lífmassi þörunganna féll í júní en reis svo aftur í júlí og ágúst (~3 mg m-3).

Eftir vorhámark svifþörunganna í apríl til maí minkaði magn þeirra umtalsvert um tíma. Er leið á sumarið (júlí) jókst magn þeirra aftur og náði dýpra en að vorinu. Í september minnkar gróðurmagnið hratt og í október er gróður nauðalítill og varir það ástand til vors.

2. mynd. Ársferill blaðgrænu (mg m-3) á stöð 10 í ÍsafjarðardjúpiSvifdýr

Dýrasvif í Ísafjarðardjúpi

Inngangur

Árin 1987 og 1988 fóru fram á vegum Hafrannsóknastofnunar rannsóknir á uppsjávarvistkerfi Ísafjarðardjúps með það að markmiði að lýsa útbreiðslu, árstíðabundnum breytingum og lífssögu helstu tegunda dýrasvifs í Djúpinu í tengslum við vöxt og viðgang plöntusvifs og umhverfisþætti.

Til að sinna þessum rannsóknum voru farnir 13 rannsóknaleiðangrar með u.þ.b. mánaðar millibili og teknar stöðvar bæði í Ísafjarðardjúpi og Jökulfjörðum. Í rannsóknunum var beitt margvíslegum aðferðum, en átunni var safnað með Bongo-háfum (335 µ möskvi)

Umhverfi og plöntusvif

Frá desember til apríl ríkti vetrarástand með köldum sjó í öllum vatnsbolnum (~1-3°C). Í maí byrjuðu yfirborðslögin að hitna og í júlí-september var sjávarhiti hæstur (~8-10°C). Ársveifla hitans var um 9°C í yfirborðslögum en um 5°C við botn.

Snemma í apríl hófst vorblómi svifþörunga. Seinni hluta apríl og fram í miðjan maí var lífmassi þörunganna mestur (~8 mg Chla m-3). Lífmassa þörunga féll í júní en reis svo aftur í júlí og ágúst (~3 mg Chla m-3).

Dýrasvif

Lífmassi dýrasvifs var mjög breytilegur eftir árstíðum. Hann var lægstur yfir vetrarmánuðina (~2-10 ml 100 m-3) en hæstur í ágúst og október-nóvember (~20-30 ml 100 m-3) (1. mynd). Yfir vetrarmánuðina var ljósáta yfirleitt >90% lífmassans en að sumrinu var svifið miklu fjölbreytilegra og fisklirfur, krabbaflær og hrúðurkarlalirfur áberandi, auk ljósátu.


1. mynd. Rúmmál (e. displacement volume) dýrasvifs í Ísafjarðardjúpi frá febrúar 1987 til febrúar 1988. Myndin sýnir meðaltalsgildi þriggja stöðva, tveggja í Ísafjarðardjúpi og einnar í Jökulfjörðum.Þéttleiki eða mergð svifdýra í sjónum var lítill yfir vetrarmánuðina (október-apríl, <10 000 einstaklingar 100 m-3) (2. mynd A). Fjöldinn jókst svo í maí og náði hámarki í ágúst (~90 000 einstaklingar 100 m-3). Eftir það snarféll fjöldinn.                                  .

Alls fundust um 40 dýrasvifstegundir og –hópar. Samfélag dýrasvifsins einkenndist af tiltölulega mörgum sjaldgæfum tegundum en fáum algengum (2. mynd B). Þannig mynduðu sex tegundir (krabbaflærnar Acartia spp. (aðallega A. longiremis), Calanus finmarchcius, Pseudocalanus elongatus, og Temora longicornis, og hrúðurkarlalirfurnar Balanus balanoides og Verruca stroemia) um 80-90% heildarfjöldans. Á 3. mynd eru myndir af nokkrum algengum svifdýrum í Ísafjarðardjúpi. Myndirnar voru teknar með svifsjá í rannsóknum á ljósátu í Djúpinu árin 2011 og 2012, en svifsjá er nokkurs konar neðansjávarsmásjá sem dregin er á eftir rannsóknabáti.Mynd 2. Þéttleiki dýrasvifs (A) og hlutfallsleg samsetning algengustu tegunda og hópa (B) í Ísafjarðardjúpi frá febrúar 1987 til febrúar 1988.

Myndin sýnir meðaltalsgildi þriggja stöðva, tveggja í Ísafjarðardjúpi og einnar í Jökulfjörðum. Staðalfrávik er sýnt með lóðréttum línum í A.


Flestar heilsvifstegundirnar sýndu svipaða árstíðasveiflu, lág gildi yfir vetrartímann og greinilegt hámarki í ágúst. Rauðáta eyðir vetrinum sem ungviði og hrygnir í mars-apríl. Hrygningin fer þannig saman við vorblóma svifþörunga. Lítill hluti dýranna sem klekst út í mars-apríl nær því að verða kynþroska og hrygna í júní, en stærstur hluti þroskast einungis í ungviðisstig og verður svo kynþroska næsta vor. Þannig hefur stærsti hluti rauðátustofnsins í Ísafjarðardjúpi eins árs lífsferil.


3. mynd. Myndir af algengum svifdýrum og lífrænum leyfum í Ísafjarðardjúpi teknar með svifsjá: Smáhveljur (A, F, O); ljósáta (B, D, L), rækjulirfa (C), kambhvelja (E), krabbaflær (G, H, P): lífrænar leyfar (I, J, K), fisklirfur (M, N, Q).

Sem fyrr segir er ljósáta mjög áberandi þáttur í vistkerfi Ísafjarðardjúps. Agga (Thysanoessa raschi) er langalgengasta ljósátutegundin. Hún verður kynþroska eins árs og getur orðið tveggja ára. Einstaklingarnir hrygna því fyrst eins árs og svo aftur tveggja ára. Hrygningin gerist aðallega frá miðjum maí og fram í miðjan júní og aðalvaxtartímabilið er frá apríl og fram í ágúst.

Önnur algengasta ljósátutegundin í Djúpinu er augnsíli (T. inermis). Eins og agga getur hún orðið tveggja ára, en ólíkt öggu eru það sennilega aðeins karldýrin sem ná því að verða kynþroska eins árs, kvendýrin þurfa tvö ár. Hrygningartími og vaxtartímabil augnsílis er á líkum tíma og hjá öggu.

Þriðja ljósátutegundin sem finnst í Djúpinu er náttlampi (Meganyctiphanes norvegica). Um lífsferil og hrygningu hennar í Djúpinu er minna vitað en um hinar ljósátutegundirnar tvær.

Meðal annars vegna þess hve ljósátustofnarnir í Ísafjarðardjúpi eru stórir voru á árunum 2011 og 2012 gerðar rannsóknir með það að markmiði að afla upplýsinga um útbreiðslu, magn, framleiðni og fæðugildi ljósátu í Djúpinu, ásamt því að gera veiðarfæratilraunir með framtíðar nýtingarsjónarmið í huga. Þar sem ljósáta er mikilvæg fæða næstum allra nytjastofna á svæðinu þarf að beita ítrustu varúðarreglu varðandi hugsanlega nýtingu.

Vöxtur og viðgangur dýrasvifs í Ísafjarðardjúpi er bæði háður staðbundnum aðstæðum svo og flutningi svifs frá hafsvæðum fyrir utan það með straumum. Rannsóknir hafa sýnt að flæði Atlatssjávar norður með Vestfjörðum er breytilegt bæði eftir mánuðum og árum, og þetta kann að hafa áhrif á flutning svifdýra frá nálægum hafsvæðum með straumum inn og út Djúpinu og þar með á árstíða- og langtímabreytingar átunnar í Djúpinu. Á hinn bóginn þá skipta staðbundnar aðstæður, svo sem veðurfar, lagskipting sjávar, vorvöxtur plöntusvifs og afræningjar (t. d fiskar) vafalaust einnig miklu máli.

Helstu heimildir

Ólafur S. Ástþórsson. 1990. Ecology of the euphausiids Thysanoessa raschi, T. inermis and Meganyctiphanes norvegica in Ísafjord-deep, northwest-Iceland. Marine Biology, 107:147-157.

Ólafur S. Ástþórsson. 1990. Agga í Ísafjarðardjúpi. Náttúrufræðingurinn, 60: 179-189

Ólafur S. Ástþórsson og Ástþór Gíslason. 1992. Investigations on the ecology of the zooplankton community in Ísafjord-deep, Northwest Iceland. Sarsia, 77: 225-236.

Ástþór Gíslason, Páll Reynisson, Hjalti Karlsson, Einar Hreinsson, Teresa Silva, Kristján Jóakimsson. Ljósáta í Ísafjarðardjúpi – nýtanleg auðlind? Lokaskýrsla til AVS (R 11/12 030-11), 47 s.


Klak og dreifing rækjulirfa í Ísafjarðardjúpi

Rækja (stóri kampalampi, Pandalus borealis) hrygnir á haustin og þá verður frjógvun eggjanna. Eftir frjóvgun festast eggin á halafætur kvendýrsins og þroskast yfir veturinn. Næsta vor klekjast úr eggjunum lirfur sem eru sviflægar fyrstu mánuðina en síðan leita þær botns og taka upp lífshætti foreldranna.

1. mynd. Lirfustig rækju (úr Berkley 1930)

Sýnasöfnun fór fram með u.þ.b. mánaðar millibili frá febrúar 1987 til febrúar 1988. Sýnunum var safnað með svokölluðum Bongo-háf á 9 stöðvum á sniði eftir endilöngu Djúpinu. Í rannsóknastofu voru rækjulirfur flokkaðar í þroskastig og skjaldarlengd þeirra mæld. Á meðan sviflæga skeiðið varir hafa lirfurnar 5 sinnum skelskipti og við hver þeirra líkjast þær æ meira fullorðunum dýrum í öllu öðru en stærð.

Engar rækjulirfur fundust í sýnum sem safnað var í febrúar og mars, en í lok apríl fundust nokkrar lirfur á I. stigi. Þegar klakið hófst virtist það aðallega bundið við mitt Djúpið (2.mynd). Aðalklaktíminn var um miðjan maí, og þá var klakið áfram mest um miðbik Djúpsins. Ekkert veiddist af I. stigs lirfum í júní og bendir það til þess að þá hafi klak verið um garð gengið. Eftir því sem lirfumar uxu og urðu eldri virtust þær berast innar í Djúpið. Fjöldi lirfa á stigum II og III var mestur í júní, og þá í innanverðu Djúpinu. Eftir það fækkaði þessum lirfustigum en fjöldi á stigi IV jókst og náði hann hámarki upp úr miðjum júní innarlega í Djúpinu. Eftir að lirfurnar höfðu náð IV. stigi fækkaði þeim mjög í sýnunum. Það bendir til þess að þær hafi tekið upp botnlæga lífshætti seint á IV. stigi eða snemma á V. stigi og þá aðallega í seinni hluta júní eða fyrri hluta júlí. Um miðjan júlí var lítinn fjölda af elstu lirfustigunum (stig IV og V) enn að finna innst í Djúpinu. Dreifing IV. og V. stigs lirfa þendir til þess að lirfurnar leiti aðallega botns í mið- og inn-Djúpinu. Lirfur af VI. stigi veiddust ekki, en um miðjan ágúst fengust fáein ungviði. Ef gert er ráð fyrir að fyrstu rækjulirfurnar komi fram um miðjan apríl og þær síðustu hverfi úr svifinu um miðjan júlí, þá er sviflæga skeiðið um þrír mánuðir

 

Á tímabilinu maí-október nam vöxtur lirfanna um 1,0 mm á mánuði (skjaldarlengd) en síðan hægði á vexti líklegast vegna lækkandi sjávarhita og minna fæðuframboðs. Skjaldarlengd níu mánaða rækju var um 7,6 mm, sem jafngildir 36 mm heildarlengd.


2. mynd. Ástíðabreytingar í sjávarhita, blaðgrænumagni og fjölda rækjulirfa á 1. stigi í Ísafjarðardjúpi febrúar 1987-febrúar 1988.


Greinileg samsvörun var milli klaks rækjulirfa og vorkomu plöntusvifsins í sjónum (2.mynd). Þegar fyrstu lirfurnar veiddust í apríllok var sjávarhiti nálægt lágmarki (um 2°C), en vorblómgun plöntusvifsins hafði þá hafist. Því er líklegt að það hafi verið vorkoma plöntusvifsins fremur en hitinn sem ákvarðaði hvenær klak fór af stað.

Meginstraumurinn í Ísafjarðardjúpi liggur inn Djúpið að sunnanverðu, en út að norðanverðu. Rækjulirfur virtust reka inn Ísafjarðardjúp samtímis því að þær þroskuðust. Það gæti bent til þess að þær haldi sig mest sunnan megin í Djúpinu, sem jafnframt ætti að tryggja lítið lirfurek þaðan burt. Lítil veiði rækjulirfa á þremur ystu stöðvunum bendir einnig til þess að lirfur reki lítið inn og út úr Djúpinu. Þess vegna er líklegt að nýliðun rækjustofnsins í Ísafjarðardjúpi sé ekki háð innflutningi lirfa annars staðar frá.

Heimildir

Ólafur S. Ástþórsson og Ástþór Gíslason. Klak og dreifing rækjulirfa í Ísafjarðardjúpi. Ægir 6. tbl. 1990, 296-301.


Ljósáta í Ísafjarðardjúpi


Árin 1987 og 1988 fóru fram á vegum Hafrannsóknastofnunar umfangsmiklar rannsóknir á vistfræði dýrasvifs í  Ísafjarðardjúpi. Þar voru m.a. sérstaklega kannaðar ástíðabreytingar á fjölda, útbreiðslu, þroska og vexti ljósátu (Euphausiacea) (1. mynd). Sýnasöfnun fór fram með svokölluðum Bongo-háf með um það bil mánaðarmillibili á 9 stöðvum eftir endilöngu Djúpinu. Í rannsóknastofu var ljósátan flokkuð til tegunda og þroskastiga og loks lengdarmæld.

Auk rannsókna á dýrasvifi voru einnig gerðar sjó- og þörungarannsóknir. Þar kom í ljós að vorupphitun yfirborðslaga sjávar hófst í byrjun maí og hitinn varð hæstur nálægt yfirborði frá síðari hluta júlí og fram í seinni hluta ágúst. Aukning gróðurs að vori virtist aðallega háð lagskiptingu yfirborðslaga vegna seltulækkunar sem aftur stafar af ísbráðnun og vorleysingum. Gróðurvöxtur hófst í apríl og náði hámarki í miðjum maí. Í ágúst varð svo aftur minna hausthámark í gróðrinum (2. mynd). 

2. mynd. Árstíðabreytingar í sjávarhita og blaðgrænumagni í Ísafjarðardjúpi í febrúar 1987-1988.

Fjórar tegundir ljósátu fundust í Ísafjarðardjúpi og var agga (Thysanoessa raschí) langalgengust af þeim, eða 65% af greinanlegum heildarfjölda dýra. Augnsíli (T. inermis) og náttlampi (M. norvegica) voru 28% og 7%, en síðan fengust einungis nokkur (sporð)kríli (T. longicaudata).

Samanlagður fjöldi allra tegunda (ungviði, karl- og kvendýr) var mestur í janúar-febrúar 1988 og þá virtust dýrin safnast saman aðallega í mið og innri hluta Djúpsins. Egg ljósátu fundust fyrst í svifinu um miðjan maí og mestur fjöldi lirfa (agga, augnsíli og kríli samtals þar sem Thysanoessa-lirfur voru ekki greindar til tegunda) veiddist í lok maí (3. mynd). Lirfur náttlampa fundust ekki í Djúpinu sem bendir til þess að nýliðun hans byggist á einstaklingum sem berast inn í Djúpið frá hafsvæðunum fyrir utan.

3. mynd. Lengdardreifing Thysanoessa-lirfa og öggu í Ísafjarðardjúpi í febrúar 1987-1988. Lirfur, kvendýr eru sýnd fyrir ofan grunnásinn og karldýr fyrir neðan. Frekari skýringar eru neðst á myndinni.

Æviskeið öggu og augnsílis var rúm 2 ár en ekki var með vissu unnt að meta æviskeið náttlampa. Það virtist þó aðeins lengra en hinna tegundanna. Mestur hluti kvendýra öggu varð kynþroska eins árs en hjá kvendýrum augnsílis var kynþroska ekki náð fyrr en við um tveggja ára aldur. Mestur hluti karldýra bæði öggu og augnsílis varð kynþroska eins árs.

Aðalvaxtarskeið Thysanoessa-lirfa var frá júlí til ágúst og vöxtur eins og tveggja ára dýra fer aðallega fram frá apríl og fram í júní. Hámarks skjaldarlengd öggu var 8-9 mm og hjá augnsíli 9-10 mm (3. mynd). Stærstu einstaklingar náttlampa voru 9-10 mm.

Hrygning öggu og augnsílis átti sér stað sama tíma og vorvöxtur þörungasvifs náði hámarki, en jafnframt þegar hitastigið í Djúpinu var nálægt lágmarki. Náið samband virðist þannig vera milli hrygningar ljósátu og vorkomu þörungasvifs í sjónum.

Heimildir

Ólafur S. Ástþórsson. 1998. Ecology of the euphausiids Thysanoessa raschi, T. inermis, and Meganyctiphanes norvegica in Ísafjord-deep, northwest Iceland. Marine Biology, 107, 147-157.

Ólafur S. Ástþórsson. 1991. Agga í Ísafjarðardjúpi. Náttúrufræðingurinn, 60(4), 179-189. 

Fiskar og fleira

Algengi fiska

Í Ísafjarðardjúp eru farnir reglulegir rannsóknaleiðangrar til athugunar á fiskgeng og fiskmagni. Þessir leiðangrar eru rækjurall að vori og hausti þar sem notuð er rækjuvarpa við rannsóknirnar sem er með fínriðnum möskva og svo vor- og haustrall þar sem notuð er fiskibotnvarpa með fínriðinni klæðningu í poka til þess að ná til smæsta fiskjarins.

 Á myndinni hér fyrir neðan má sjá tíðnidreifingu þeirra fisktegunda sem hafa komið fyrir í þessum rannsóknum í Ísafjarðardjúpi. Myndin segir ekkert til um magn viðkomandi tegundar heldur aðeins um það hvort hún hefur komið fyrir í viðkomandi veiðarfæri/togi á rannsóknatímabilinu. Gögnin sem notuð eru við gerð myndarinnar eru úr eftirtöldum leiðöngrum: Vorrall (SMB) 1985-2013 í mars, Haustrall (SMH) 1995-2013 í október, Rækjurall að vori/seinni hluta vetrar (febrúar og mars) og Rækjurall að hausti (september og október).

Lang algengast er að fá skrápflúru í rækjutroll að vori og hún er einnig mjög algeng í rækjutroll að hausti eða þriðja algengasta tegundin. Þorskur er önnur algengasta tegund í rækjutroll bæði vor og haust. Ýsa er algengust í rækjutroll að hausti en fimmta algengasta tegundin að vori.

Skrápflúra er algengasta tegundin sem fæst í fiskitroll bæði vor og haust en skarkoli er í öðru sæti. Í vorralli er tindaskata þriðja algengasta tegundin en að hausti er það ýsa. Þorskur er fjórða algengasta tegundin í ralli væði vor og haust. Aðrar kolategundir svo sem langlúra og sandkoli eru einnig algengar bæði í vorralli og í haustralli.

Tíðni fisktegunda sem hafa fengist í rannsóknaleiðöngrum Hafrannsóknastofnunar í Ísafjarðardjúpi


Um líffræði fiskungviðis í ÍsafjarðardjúpiSeiðum og ungfiski (mest 0 og 1 árs) var safnað í 7 leiðöngrum í Ísafjarðardjúpi frá september 1974 til febrúar 1975. Á meðfylgjandi mynd hér til hliðar er Ísafjarðardjúpi skipt upp í ytri og innri hluta til að sýna breytingar í dreifingu seiða og ungfisks yfir vetrarmánuðina.

Seiðaárgangurinn 1974 leitaði smám saman innar í Djúpið frá september til nóvember, en tók að færa sig utar í Djúpið í desember og fram í febrúar. Um og eftir áramótin virðist ungþorskurinn vera að ganga út úr Djúpinu, því heildarfjöldiinn fer hratt minnkandi*. Útreiknuð afföll vegna veiða með rækjuvörpu skýra þó um þriðjung fækkunarinnar og áætlaður náttúrulegur dauði er um 1.6% á dag að meðaltali. Það er því áætlað er að um 37% þorskárgangsins hafi í raun gengið út úr Djúpinu.

Svipað á við um dreifingu ýsu- og lýsuungviðis um Ísafjarðardjúp, eins og hjá þorski. Hins vegar er áætlað að minni afföll hafi orðið vegna rækjuveiða hjá þessum tegundum og því hafi stærri hluti ýsu og lýsu gengið út úr Djúpinu um og upp úr áramótum, eða um 57% af ýsuungviðinu og um 64% af lýsunni.

Fæða

Hjá seiðum og ungfiski (0 og 1 árs) þorsks í Ísafjarðardjúpi er ljósáta lang mikilvægasta fæðutegundin, en fiskar og rækja bætast á matseðilinn í lok seinna ársins. Ljósáta er líka lang mikilvægasta fæðan hjá ýsuseiðunum, en mikilvægi ljósátu minnkar hratt eftir áramótin og þá eru fiskar og marflær orðnar jafn mikilvægar. Í lok árs eru fiskar orðnir lang mikilvægasta fæða 1 árs ýsu en mikilvægi krabba er að aukast. Lýsuseiðin éta einnig lang mest ljósátu, en 1 árs lýsa étur mest rækju, en svolítið af fiskum.

 

*Ath. að sennilega er fjöldi þorskseiða vanáætlaður í september-nóvember, því þá halda seiðin sig nær yfirborði en togað var.

Heimildir

Ólafur Karvel Pálsson, 1976. Um líffræði fiskungviðis í Ísafjarðardjúpi. Hafrannsóknir, 8, 5-56. - Leiðrétting við greinina var birt í Hafrannsóknir, 12: 58-62).


Lirfur og seiði nytjafiska í Ísafjarðardjúpi


Seiðarannsóknir voru stundaðar árlega af Hafrannsóknastofnun á árunum 1970-2003. Rannsóknaleiðöngrunum, sem farnir voru umhverfis allt land í ágúst, var ætlað að gefa fyrstu hugmynd um stærð nýjasta árgangs helstu nytjafiska. Við hlýnun sjávar frá og með 1997 breyttust aðstæður umhverfis landið þannig að veikt samband, sem verið hafði milli seiðafjölda og árgangastærðar var ekki lengur merkjanlegt og var seiðaleiðöngrum því hætt.

Í mæliseríunni liggja þó enn ýmsar óunnar upplýsingar og hér verður gerð stuttlega grein fyrir einum þætti þeirra, þ.e.a.s. árlegu magni fiskasvifs í Ísafjarðardjúpi í ágúst. Umfjöllunin mun þó að mestu takmarkast við þorskseiði, ýsuseiði og loðnulirfur. Seiðin (og lirfurnar) voru veiddar í klædda flotvörpu og togað í gegnum lóðningar. Þar sem mismargar togstöðvar voru teknar í Djúpinu einstök ár, er heildarfjölda veiddra seiða og lirfa deilt með fjölda stöðva, þannig að út kemur meðalfjöldi á stöð fyrir hvert ár. Alls fundust um 30 tegundir af fisklirfum og seiðum í Djúpinu á þessu árabili, en einungis þorskur, ýsa, lýsa, loðna, sandsíli (spp*) og mjónar (spp*) fengust reglulega í umtalsverðu magni.

Sem vonlegt er, er lítil eða engin fylgni milli magntalna af svo litlu svæði sem Ísafjarðardjúp er og stærð fiskárganga, eins og Hafrannsóknastofnun mælir þá þegar þeir koma inn í veiði 2-3 árum síðar. Hins vegar getur verið fróðlegt að skoða hvernig langtíma sveiflum í þessum stærðum ber saman.


Þorskseiði

Á árunum 1970-1996 voru tvö ólík tímabil í meðalfjölda þorskseiða í Djúpinu, það fyrra 1970-1984 (meðalfjöldi 837) og það  síðara 1985-1996 (meðalfjöldi 48) (1. mynd). Þótt sveiflur í seiðafjölda séu margfaldar á við sveiflur í endanlegri stærð samsvarandi þorskárganga voru þorskárgangarnir á fyrra tímabilinu að meðaltali talsvert stærri (199 á móti 161 milljón 3 ára þorska). Eftir að hlýnaði í sjónum (frá og með 1997) verður til þriðja tímabilið í seiðamælingunum með óvenju jöfnum og háum meðalfjölda þorskseiða í Djúpinu (meðalfjöldi 1857). Þessi ár veiddist reyndar mjög mikið af þorskseiðum umhverfis allt land, án þess að það endurspeglaðist í aukinni stærð þorskárganga, sem voru áfram smáir.

1. mynd. Meðalfjöldi þorskseiða

í Ísafjarðardjúpi.


                                                                       


Ýsuseiði

 Sambærileg kaflaskipti og hjá þorskseiðum má greina í fjölda ýsuseiða í Ísafjarðardjúpi og aftur hér, sker árið 1984 sig úr með langmestan fjölda seiða (2. mynd) . Meðalfjöldi ýsuseiða á sömu tímabilum og fyrir þorsk er 105 (1970-1984), 9 (1985-1996) og 100 (1997-2003). Veikt samband er milli fjölda ýsuseiða í Djúpinu og stærðar samsvarandi ýsuárganga síðar. Þetta samband stafar fyrst og fremst af því að fjöldi ýsuseiða í Djúpinu er að jafnaði hár og óvenju stöðugur frá 1997 á sama tíma og mikill vöxtur varð í árgangastyrk ýsunnar.


2. mynd. Meðalfjöldi ýsuseiða í Ísafjarðardjúpi
Loðnulirfur

Loðnulirfur, sem klekjast út að vori eru enn á lirfustigi í ágúst. Breytingar í fjölda loðnulirfa í Ísafjarðardjúpi eru með allt öðru móti en hjá þorsk- og ýsuseiðum (3. mynd). Fjöldi loðnulirfa í Djúpinu virðist sveiflast í grófum dráttum með 10-12 ára sveiflu og hámörkum ca. 1973, 1985 og 1995. Sem kunnugt er sveiflast árgangastærðir loðnu að hluta á áþekkan máta, en há- og lággildi loðnulirfa og árgangastærða falla aðeins að hluta til saman.

* Auðkennið spp (enska: species plural), er safnheiti fyrir fleiri en eina tegund innan sömu ætthvíslar


3. mynd. Meðalfjöldi loðnulirfa

í Ísafjarðardjúpi


Athuganir á beitusmokk

Beitusmokkur gengur óreglulega hingað til lands, eða að meðaltali annað hvert ár. Beitusmokkurinn hrygnir djúpt vestur af Skotlandi og allt suður undir Azoreyjar í desember til febrúar. Sviflæg eggin berast með straumi í norðurátt, en talið er að norðlæg útbreiðsla hrygningar hafi meiri áhrif á hvort smokkur gengur alla leið norður til Íslands.

Algeng kápulengd beitusmokks er um 15-20 cm, þegar hann birtist á Íslandsmiðum seinni hluta sumars. Oftast hverfur smokkurinn suður á bóginn í seinasta lagi í desember. Talið er að hann nái kynþroska þegar á öðru ári.

Þekkt útbreiðslu og veiðisvæði beitusmokks við Ísland haustið 1979 og veturinn 1980.

Um 20. ágúst 1979 varð vart við smokkfiskgöngu í Faxaflóa. Þann 30. ágúst varð vart við hann í Arnarfirði og nokkrum dögum síðar í Dýrafirði og í Jökulfjörðum. Aðalgangan kom hins vegar ekki í Ísafjarðardjúp fyrr en um mánaðamótin september-október. Smokkurinn virðist að mestu hafa horfið af þessum slóðum í nóvember, en lítillega varð vart við beitusmokk allt austur í Öxarfjörð eftir áramótin, sem er óvenjulegt.

Smokkurinn vex mjög hratt, en aðalfæða hans eru fiskseiði (42%) og smokkur (28%).  Haustið 1979 lengdist smokkurinn að meðaltali um 4-5 cm og þyngdist um ca. 150 g á einungis tveimur mánuðum (september – október).  Um 375 tonn voru veidd af smokkfiski haustið 1979, aðallega á Vestfjörðum.

Heimild: Einar Jónsson 1980. Líffræðiathuganir á beitusmokk haustið 1979. Áfangaskýrsla. Biological studies on squid, Todarodes sagittatus (Lamarck) in Icelandic waters during the autumn 1979 with notes on its distribution and migration. Progress report. Hafrannsóknastofnunin Fjölrit nr. 7, 22 s.

http://www.hafro.is/Bokasafn/Timarit/fjolr-007.PDF


Fuglar

Efni í vinnslu

Spendýr

Efni í vinnslu


 

Útlit síðu:

imgban