Firðir og grunnsævi
Ísafjarðardjúp

Ísafjarðardjúp

Upplýsingar

Hnit
66°05'N 22°48'W

Flatarmál
650 km2

Meðal dýpi
50-100 m

Mesta dýpi
  130 m

Ísafjarðardjúp er einn af stærstu fjörðum Íslands og sá langstærsti á Vestfjörðum. Það er um 75 km langt frá mynni að botni innsta fjarðar, Ísafjarðar. Það er rúmlega 20 km á breidd við mynnið, þar sem það er breiðast, á milli Stigahlíðar að sunnan og Rits en Ritur er ysti höfði Grænuhlíðar að norðan. Djúpið mjókkar smám saman eftir því sem innar dregur. Frá mynni Ísafjarðardjúps og inn eftir því gengur áll sem er 110-130 m djúpur en á grunnunum beggja vegna er 40-60 m dýpi.

Suður úr Djúpinu ganga níu firðir en yst í því sunnan megin er Bolungarvík. Að norðanverðu er aðeins einn lítill fjörður Kaldalón og þar fyrir framan Lóndjúp. Til norðausturs út úr mynni Ísafjarðardjúps gengur stór fjörður, svokallaðir Jökulfirðir, sem greinist í fimm innfirði.

Nokkrar eyjar eru í Ísafjarðardjúpi. Æðey er þeirra stærst en hún er norðan megin í Djúpinu rétt utan við Unaðsdal. Vigur er nokkuð stór eyja í minni Hest- og Skötufjarðar en Borgarey smæst og innst, vel utan við innsta fjörðinn, Ísafjörð. Flatarmál Ísafjarðardjúps að frádregnum innfjörðum þess er um 650 km2 en að viðbættum  innfjörðum um 786 km2 og eru þá Jökulfirðir undanskildir.

Bolungarvík

Í mynni Ísafjarðardjúps sunnan til gengur há og þverhnípt hamrahlíð í sjó fram sem nefnist Stigahlíð og næst fyrir innan hana er Bolungarvík. Hún er mjög opin fyrir sjó.
Lesa meira

Skutulsfjörður

Skutulsfjörður er grunnur fjörður þar sem dýpi er mest 25 m utarlega en mun grynnra með landi og innar í firðinum. Hann er vestastur þeirra fjarða sem ganga suður úr Ísafjarðardjúpi.
Lesa meira

Álftafjörður

Álftafjörður er næsti fjörður innan við Skutulsfjörð. Í firðinum hafa myndast þrjár eyrar þar sem ár renna til sjávar. Súðavík stendur við þá ystu sem heitir Langeyri en innar er Hattareyri en þar hefur verið tekið efni úr sjó til framkvæmda á landi.
Lesa meira

Seyðisfjörður

Seyðisfjörður sem er austan við Álftafjörð er lítill fjörður. Hann er tæpir 3 km á breidd í mynninu milli Kambness og Folafótar en fer mjókkandi eftir því sem innar dregur. Lengd fjarðarins er tæpir 9 km frá fjarðarmynni í fjarðarbotn og flatarmál hans um 11,5 km2 .
Lesa meira

Hestfjörður

Hestfjörður er austan við Seyðisfjörð í Ísafjarðardjúpi. Hann er rúmlega 1 km á breidd í fjarðarmynni við Hvítanes og fer hægt mjókkandi frá fjarðarmynni inn í botn. Hann er tæplega 13 km langur frá fjarðarmynni inn í botn. Flatarmál hans er 12 km2 .
Lesa meira

Skötufjörður

Skötufjörður er langur mjór fjörður. Mynni hans milli Tjaldtanga og Ögurnes er um 4,8 km á breidd en rúmir 4 km frá Tjaldtanga í Skarðshlíð. Breidd fjarðar við Hvítanes í Skarðseyri þar sem hinn eiginlegi Skötufjörður byrjar er tæpir 2 km en lengd fjarðarins þaðan inn í fjarðarbotn er rúmir 13 km og flatarmál hans um 12 km2 .
Lesa meira

Mjóifjörður

Mjóifjörður er eins og nafnið ber með sér langur mjór fjörður. Breidd í fjarðarmynni er 2,2 km milli Digraness og Miðtanga. Fjörðurinn svipaður á breidd inn undir Hrútey, sem er í miðjum firði, tæpa 6 km innan fjarðamynnis. Þar fyrir innan er fjörðurinn mjórri eða rúmlega 1 km á breidd og breytist lítið inn undir botn. Lengd frá fjarðarmynni í botn er 18,4 km en flatarmál fjarðarins er rúmir 25 km2 .

Lesa meira

Reykjafjörður

Reykjafjörður er lítill fjörður austan við Vatnsfjörð. Breidd í fjarðarmynni er um 0,7 km, lengd um 4,7 km en flatarmál um 3,9 km2. Dýpi er ekki þekkt. Í hann rennur Fjarðarhornsá sem á upptök sín í Svansvíkurvatni sem er inn af Reykjafjarðardal.

Lesa meira

Ísafjörður

Ísafjörður er innsti fjörðurinn í Ísafjarðardjúpi. Hann er tæpir 2 km á breidd í fjarðarmynni sem hér er talið milli Reykjaness og Hundatanga. Hann mjókkar sáralítið inn fyrir miðjan fjörð en þrengist hratt eftir það inn í botn þar sem kallast Pollur.

Lesa meira

Kaldalón

Kaldalón er lítill mjög grunnur fjörður (dýpi <10 m) innarlega norðan megin í Ísafjarðardjúpi. Rétt innan við mynni hans eru tvær eyrar sitthvorum megin, Lóneyri vestan megin og Seleyri austan megin.

Lesa meira 

Útlit síðu:

imgban