Firðir og grunnsævi
Sjór

Sjór

Litlar sjórannsóknir hafa farið fram í Fljótavík og má segja að aðeins ein rannsókn liggi fyrir sem gefi hugmynd um breytingar á hita, seltu og næringarefnum í víkinni.

Straumar

Ekki hafa verið mældir straumar í Fljótavík en vitað er að strandstraumur á þessu svæði liggur með landi til austurs.

Hiti

Yfirborðshitamælingar voru gerðar í Fljótavík í tengslum við svifþörungarannsókn sem gerð var árið 1994 (1. mynd). Sjávarhiti í lok mars í yfirborði var um 1 °C og hækkaði jafnt og þétt er leið fram á sumar upp í rúmar 10 °C í ágúst. Eftir það fór hiti lækkaði er leið fram á haustið og var orðinn 4-5 °C í nóvember.

1. mynd. Breytingar á hita i yfirborði sjávar í Fljótavík árið 1994.

Heimildir

Þórunn Þórðardóttir og Agnes Eydal 1994. Phytoplankton at the Ocean Quahog Harvesting Areas Off the Southwest Coast of Iceland 1994. Svifþörungar á kúfiskmiðum út af norðvesturströnd Íslands 1994. Hafrannsóknastofnun. Fjölrit, 51, 28 s. http://www.hafro.is/Bokasafn/Timarit/fjolrit-051.pdf

Selta

Seltumælingar voru gerðar í yfirborði sjávar í Fljótavík í tengslum við svifþörungarannsókn sem gerð var árið 1994. Nokkrar sveiflur voru í yfirborðsseltu í Fljótavík frá vori til hausts árið 1994 og sveifluðust seltugildi frá 27,9 til 34,6 (1. mynd). Mestan hluta mælitímans voru seltugildi þó vel yfir 34. Aðalseltulækkunin verður í júní til júlí en þá verður mjög skörp seltulækkun á stuttum tíma og tengist snjóbráðnum sem eykur ferskvatnsrennsli tímabundið til sjávar. Lækkun seltu í Fljótavík var mjög samsvarandi lækkun á seltu á sama tíma í Önundarfirði en mun meiri en fram kom í Aðalvík þar sem selturannsóknir voru gerðar á sama tíma.

1. mynd. Árstíðabreytingar í seltu í yfirborði sjávar í Fljótavík árið 1994.

Heimildir

Þórunn Þórðardóttir og Agnes Eydal 1994. Phytoplankton at the Ocean Quahog Harvesting Areas Off the Southwest Coast of Iceland 1994. Svifþörungar á kúfiskmiðum út af norðvesturströnd Íslands 1994. Hafrannsóknastofnun. Fjölrit, 51, 28 s. http://www.hafro.is/Bokasafn/Timarit/fjolrit-051.pdf


Næringarefni

 

1. mynd. Styrkur nítrats í sjó í Fljótavík árið 1994.

Næringarefnamælingar voru gerðar á yfirborðssjó í Fljótavík í tengslum við svifþörungarannsókn sem gerð var árið 1994. Styrkur nítrats í byrjun apríl var rúmlega 14 µmól/l en féll mjög hratt úr því niður fyrir 2 µmól/l í byrjun maí, samfara vorhámarki svifþörunga (1. mynd). Nítratstyrkur jókst síðan aftur í síðari hluta maí upp í tæplega 4 µmól/l um miðjan júní. Þá fór styrkur nítrats lækkandi á nýjan leik og kláraðist nítrat nánast alveg í byrjun ágúst vegna aukins vaxtar svifþörunga á þessu tímabili. Þegar leið á ágúst jókst nítrat á nýjan leik. Úr því fer sjórinn að blandast upp að nýju og nítrat gildi fara hækkandi fram á haustið og eru orðin hærri en 7 µmól/l í lok október.

Styrkur fosfats í byrjun apríl var rúmlega 0,9 µmól/l en féll mjög hratt úr því niður í 0,2 µmól/l samfara vorhámarki svifþörunga (2. mynd). Sumargildi fosfats sveifluðust milli 0,2-0,4 µmól/l en byrjuðu að hækka í september við vetrarblöndun sjávar og höfðu ná 0,7 µmól/l í lok október.

      2. mynd. Styrkur fosfats í sjó í Fljótavík árið 1994.                                    3. mynd. Styrkur kísils í sjó í Fljótavík árið 1994       

Styrkur kísils í byrjun apríl var tæplega 10 µmól/l en féll mjög hratt úr því niður fyrir 1 µmól/l samfara vorhámarki kísilþörunga í byrjun maí (3. mynd). Sumargildin sveifluðust frá 1 til 5 µmól/l en jukust verulega í stuttan tíma í júní og júlí samfara auknu ferskvatnsrennsli til sjávar sem ber með sér kísil. Styrkur kísils fer síðan hækkandi er haustar vegna vetrarblöndunar sjávar og er í kringum 5 µmól/l frá september til nóvember.

Heimildir

Þórunn Þórðardóttir og Agnes Eydal 1994. Phytoplankton at the Ocean Quahog Harvesting Areas Off the Southwest Coast of Iceland 1994. Svifþörungar á kúfiskmiðum út af norðvesturströnd Íslands 1994. Hafrannsóknastofnun. Fjölrit, 51, 28 s. http://www.hafro.is/Bokasafn/Timarit/fjolrit-051.pdf
 

Útlit síðu:

imgban