Firðir og grunnsævi
Líf

Líf

Efni í vinnslu

Botndýr

Efni í vinnslu

Botnþörungar

Efni í vinnslu

Fjörudýr

Efni í vinnslu


Svifþörungar

Svifþörungar á kúffiskmiðum - Fljótavík

Vegna fyrirhugaðs útflutnings á kúfiski til Bandaríkjanna árið 1994, voru gerðar viðamiklar rannsóknir á veiðisvæðum kúfisks samkvæmt kröfum bandarískra yfirvalda. Meðal rannsóknaþátta voru rannsóknir á plöntusvifi og umhverfi þeirra.

     

1. mynd. Stöðvakort sem sýnir söfnunarstaði í Önundarfirði (ÖN), Aðalvík (AL) og Fljótavík (FL).

Frá 28. mars til októberloka árið 1994 var yfirborðssýnum safnað vikulega á þremur stöðum þ.e. í Önundarfirði, í Aðalvík og í Fljótavík (1. mynd). Háfsýni (20µm) og talningarsýni vegna svifþörunga voru tekin úr yfirborði. Einnig var mæld blaðgræna svifþörunga sem mælikvarði á magn þeirra, og selta, hiti og næringarefni í yfirborði. Eitt af markmiðum rannsóknanna var að kanna tilvist svifþörunga sem hugsanlega geta framleitt eiturefnin PSP (Paralytic shellfish poison) sem er hættulegt taugaeitur og skoruþörungar af ættinni Alexandrium geta framleitt, DSP (Diarrheic shellfish poison) sem veldur magaeitrun og skoruþörungar af ættinni Dinophysis geta framleitt og að lokum ASP (Amnesic shellfish poison) sem er einnig taugaeitur og getur m.a. valdið minnisleysi en kísilþörungar af ættinni Pseudonitzschia geta framleitt þetta eitur. Svifþörungar eru fæða margra skelja sem sía fæðu úr sjónum og þannig getur eitur í svifþörungum safnast upp í þeim. Mánaðarlega var safnað sýnum úr kúfiskafla til að kanna hvort þessi eiturefni væru mælanleg í skelfiskinum en mælingin var framkvæmd af Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins. Hér verður greint frá þætti svifþörunga í Fljótavík í rannsókninni en þar er brimasemi mikil.

Í lok mars og fram undir miðjan apríl var lítill gróður í Fljótavík en gróður fór hratt vaxandi úr því og vorhámark svifþörunga varð um miðjan maí en þá varð magn blaðgrænu rétt um 6 mg m-3. (2. mynd). Að loknu vorhámarki féll magn blaðgrænu mikið í fyrri hluta júní var styrkur hennar lár (<1 mg m-3). Eftir það fór blaðgræna vaxandi á nýjan leik og var á bilinu 1-3 mg m-3 til loka september en minnkaði hratt úr því fram á haustið.


2. mynd. Ársferill blaðgrænu í Fljótavík árið 1994.

Algengustu svifþörungategundir í vorgróðrinum voru kísilþörungarnir Thalassiosira gravida, Th. nordenskioeldii og Chaetoceros socialis en einnig var Phaeocystis pouchetii (Prymnesiophyceae) algengur. Í þeim gróðurtoppum sem fylgdu er leið á sumarið bar fyrst mest á Leptocylindrus minimus, síðan Skeletonema costatum og að lokum Pseudonitzschia pseudodelicatissima, allt kísilþörungategundir. Kísilþörungar voru ríkjandi hópur svifþörunga frá vori til hausts. Aðrir hópar náðu samtals mest að verða 15% af heildar frumufjölda svifþörunga.
3. mynd. Fjöldi kísilþörunga (frumur í lítra) frá vori til hausts í Fljótavík árið 1994.

Svifþörungategundir sem geta myndað eiturefnin PSP, DSP og ASP fundust í Önundarfirði. Alexandrium spp (A. tamarense og A. ostenfeldii) sem getur valdið PSP eitrun í skelfiski fannst fyrst í maí 1994 en var síðan viðvarandi frá júní fram í byrjun ágúst. Frá 9. júní til júlíloka fundust mörg hundruð frumur í lítra af sjó en flestar frumur fundust í fyrri hluta júlí 500 frumur í lítra af sjó. Þetta er langt yfir þeim viðmiðunarmörkum sem notuð eru í dag (2014) varðandi hættu á PSP eitrun í skelfiski vegna Alexandrium tegunda (sjá http://www.hafro.is/voktun/vidmid.htm). Niðurstöður mælinga á PSP í kúfiski í rannsókninni 1994 voru alltaf undir hættumörkum.

4. mynd. Fjöldi (frumur í lítra) Alexandrium tegunda (svartar súlur) og fjöldi Dinophysis tegunda (gráar súlur) í Fljótavík árið 1994.

Dinophysistegundir (aðallega D. acuminata en einnig D. norvegica, D. acuta og D. rotundata) fundust í Fljótavík frá byrjun júlí 1994 til október þegar söfnun lauk, með mestan fjölda í byrjun ágúst 420 frumur í lítra og litlu minna allan ágúst en einnig var nokkuð af þeim í september og október. Fjöldi Dinophysis tegunda fór aldrei yfir þau viðmiðunarmörk sem notuð eru á árinu 2014 (sjá http://www.hafro.is/voktun/vidmid.htm).

Pseudonitzschia pseudodelicatissima (kísilþörungur) fannst í Aðalvík frá júní 1994 til október sama ár. Mestur fjöldi fannst í ágúst en þá var fjöldi þeirra frá hundruðum þúsunda fruma í lítra upp í 4,1 milljónir fr/l sem er langt yfir þeim viðmiðunarmörkum sem notuð eru í dag (2014) varðandi hættu á ASP eitrun í skel vegna Pseudonitzschia tegunda (sjá http://www.hafro.is/voktun/vidmid.htm).

Heimildir

Þórunn Þórðardóttir og Agnes Eydal 1994. Phytoplankton at the Ocean Quahog Harvesting Areas Off the Southwest Coast of Iceland 1994. Svifþörungar á kúfiskmiðum út af norðvesturströnd Íslands 1994. Hafrannsóknastofnun. Fjölrit, 51, 28 s. http://www.hafro.is/Bokasafn/Timarit/fjolrit-051.pdf


Svifdýr

Efni í vinnslu

Fiskar

Efni í vinnslu

Fuglar

Efni í vinnslu

Spendýr

Efni í vinnslu


 

Útlit síðu:

imgban