Firðir og grunnsævi
Líf

Líf

Efni í vinnslu

Botndýr

Dýrafjörður var þveraður 1991 og brúin formlega opnuð 1992. Vegna fyrirhugaðrar þverunar voru gerðar þar úttektir á dýralífi á árunum 1984-1986. Ný rannsókn var gerð árið 2008 af Þorleifi Eiríkssyni og Böðvari Þórissyni (sjá http://www.nave.is/utgefid_efni/skra/79/)

Tilgangur þessarar rannsóknar er að athuga hvort breytingar hafi orðið á botndýralífi innan brúar í Dýrafirði eftir þverun. Sýni voru tekin á sömu átta stöðvum og í fyrri rannsókn (A-H), en auk þess var tekin aukastöð nálægt brú (stöð I)

Sýnatökustöðvar við botndýrarannsóknir í Dýrafirði 2008.

Niðurstöður benda ekki til að tegundafjölbreytni botndýra innan brúar i Dýrafirði hafi minnkað í kjölfar þverunar fjarðarins. Flestir dýrahópar og tegundir sem fundust í fyrri rannsókn fundust einnig nú á sömu stöðvum, en með ákveðnum undantekningum.

Auðnuskel, burstaormar af ættinni Flabelligeridae og pungrækjan Eudorella emarginata fundust í fyrri rannsókn og tvær þær síðastnefndu á nokkrum stöðvum, en engin þeirra fannst í þessari rannsókn.

Aftur á móti fundust eftirfarandi tegundir nú, sem ekki fundust í fyrri rannsókn: Hjartarskel, báruskel, kolkuskel og gljáhnytla, pungrækja af ætthvíslinni Leucon og marflóin Corophium bonelli.

Hafa ber í huga að á þessum 22 árum milli rannsókna hafa orðið breytingar á lífríki við strendur landsins og einnig verða sveiflur í stofnstærðum óháð breytingum í umhverfinu.


Botndýr í Dýrafirði

Líffræðistofnun og Náttúrustofa Vestfjarða hafa gert rannsóknir á botndýralífi Dýrafjarðar og niðurstöður hafa verið birtar í skýrslum. Eftirfarandi er unnið upp úr nokkrum greinum um botndýr í Dýrafirði (sjá heimildir).

Frumrannsókn var gerð innarlega í Dýrafirði 1985 áður en brúin var gerð við Lambadalsodda. Árið 2007 var gerð samanburðarrannsókn á svæðinu innan við brúna. Ennfremur hafa botndýr verið skoðuð undir fiskeldiskvíum á Haukadalsbót og út af Mýrarfelli og við Gemlufall vegna fyrirhugaðs fiskeldis.

Algengasta tegundin í innri hluta fjarðarins 1985 var burstaormurinn Maldane sarsi en aðrar algengar tegundir voru leirlaufi (Etone longa), Pholoë spp. og marflóin Pontoporeia femorata, en þessar tegundir eru algengar víða um land. Tegundafjöldi utan við brúarstæðið var hærri en fyrir innan en algengustu tegundir flestar þær sömu. Við samanburðarrannsókn sem gerð var á svæðinu 2007, innan við brúarstæðið, fundust fleiri samlokutegundir en mun færri burstaormategundir.

Algengustu tegundir undir Mýrafelli og út af Gemlufalli voru samlokurnar gljáhnytla (Ennucula tenuis) og trönuskel (Nuculana pernula). Engin burstaormategund var afgerandi í fjölda á þessum stöðuvm en burstormarnir Galathowenia oculata, Cossura longocirrata og Sablellides octocirrata voru með mestan fjölda þeirra undir Mýrafelli en Sternapsis scutata var í mestu magni undir Gemlufelli.

Sýni voru tekin með botngreip í öllum rannsóknunum.

Heimildir

Böðvar Þórisson, Cristian Gallo og Þorleifur Eiríksson 2010. „Athugun á botndýrum utarlega í Dýrafirði 2009“ Unnið fyrir Dýrfisk ehf. NV nr. 7-10

Jörundur Svavarsson og Arnþór Garðarsson 1986. „Botndýralíf í Dýrafirði“. Líffræðistofnun Háskólans Fjölrit nr. 25.

Þorleifur Eiríksson og Böðvar Þórisson 2012. „Athugun á botndýralífi út af Gemlufalli og Mýrafelli í Dýrafirði“ NV nr. 13-12

Þorleifur Eiríksson og Böðvar Þórisson 2008. „Dýralíf í Önundarfirði og Dýrafirði.  Áfangaskýrsla 3. Rannsóknir á botndýrum í Dýrafirði“ NV nr. 08-08
Botnþörungar

Efni í vinnslu

Fjörudýr


Efni í vinnslu

Svifþörungar

Efni í vinnslu

Svifdýr

Efni í vinnslu

Fiskar og fleira

Skarkolaseiði í Dýrafirði

Skarkolinn er mikilvægur nytjafiskur og mjög algengur á grunnslóð allt í kringum landið. Í júlí 2006 var farinn leiðangur hringinn í kringum landið og sýni tekin á 32 stöðvum með litlu trolli (1. mynd) sem dregið var í sandfjörum með handafli af tveimur mönnum (2. mynd). Trollið er bjálkatroll sem er nokkurskonar botntroll. Það er spennt á álramma sem situr á meiðum, 1 m á breidd og 20 cm á hæð, og er það dregið með handafli í fjöruborðinu á u.þ.b. 1 m dýpi eða af slöngubát á dýpra vatni. Leitast var við að dreifa sýnasöfnun þannig að á sem stystum tíma fengist heildstæð mynd af fjölda og lengdardreifingu skarkolaseiða allt í kringum landið.

  
1. mynd. Skarkolaseiðatroll    
              2. mynd. Trollið dregið                           3. Nýklakið skarkolaseiði

Tilgangur rannsóknanna sem hér er greint frá var að auka skilning á uppruna skarkolaseiða við Ísland (3. mynd). Til þess var útbreiðsla, aldur og vöxtur seiða við landið kannaður og í framhaldinu er ætlunin að tengja þessa þætti við upplýsingar um strauma og rekhraða og þannig áætla frá hvaða svæðum seiðin eru (sjá Björn Gunnarsson og fl. 2010).

Þann 21. júlí 2006 voru tekin þrjú 100 m tog í norðanverðum Dýrafirði (65.8987 N - 23.4940 V) og reyndist þéttleiki skarkolaseiða þar vera um 1493 einst. á hverja 100 m2 og var meðallengdin um 19.5 mm. Þetta reyndist vera næsthæsti þéttleiki skarkolaseiða er mældist við landið.

Heimildir: Björn Gunnarsson, Jónas P. Jónasson og Bruce J. McAdam, 2010. Variation in hatch date distributions, settlement and growth of juvenile plaice (Pleuronectes platessa L) in Icelandic waters. Journal of Sea Research 64, 61-67.

Athuganir á beitusmokk

Beitusmokkur gengur óreglulega hingað til lands, eða að meðaltali annað hvert ár. Beitusmokkurinn hrygnir djúpt vestur af Skotlandi og allt suður undir Azoreyjar í desember til febrúar. Sviflæg eggin berast með straumi í norðurátt, en talið er að norðlæg útbreiðsla hrygningar hafi meiri áhrif á hvort smokkur gengur alla leið norður til Íslands.

Algeng kápulengd beitusmokks er um 15-20 cm, þegar hann birtist á Íslandsmiðum seinni hluta sumars. Oftast hverfur smokkurinn suður á bóginn í seinasta lagi í desember. Talið er að hann nái kynþroska þegar á öðru ári.

Þekkt útbreiðslu og veiðisvæði beitusmokks við Ísland haustið 1979 og veturinn 1980.

Um 20. ágúst 1979 varð vart við smokkfiskgöngu í Faxaflóa. Þann 30. ágúst varð vart við hann í Arnarfirði og nokkrum dögum síðar í Dýrafirði og í Jökulfjörðum. Aðalgangan kom hins vegar ekki í Ísafjarðardjúp fyrr en um mánaðamótin september-október. Smokkurinn virðist að mestu hafa horfið af þessum slóðum í nóvember, en lítillega varð vart við beitusmokk allt austur í Öxarfjörð eftir áramótin, sem er óvenjulegt.

Smokkurinn vex mjög hratt, en aðalfæða hans eru fiskseiði (42%) og smokkur (28%).  Haustið 1979 lengdist smokkurinn að meðaltali um 4-5 cm og þyngdist um ca. 150 g á einungis tveimur mánuðum (september – október).  Um 375 tonn voru veidd af smokkfiski haustið 1979, aðallega á Vestfjörðum.

Heimildir: Einar Jónsson 1980. Líffræðiathuganir á beitusmokk haustið 1979. Áfangaskýrsla. Biological studies on squid, Todarodes sagittatus (Lamarck) in Icelandic waters during the autumn 1979 with notes on its distribution and migration. Progress report. Hafrannsóknastofnunin Fjölrit nr. 7, 22 s.

http://www.hafro.is/Bokasafn/Timarit/fjolr-007.PDF


Fuglar

Efni í vinnslu

Spendýr

Efni í vinnslu.


 

Útlit síðu:

imgban