Firðir og grunnsævi
Nytjar

Nytjar

Í Arnarfirði hafa verið stundaðar margvíslegar nytjar á sjávarfangi. Mikilvægastar síðustu áratugina eru rækjuveiðar en veiðar á nytjategundum fiska hafa verið stundaðar frá ómunatíð.

Veiðar

Fiskveiðar

Í Arnarfirði hefur verið veitt með flestum veiðarfærum en hér eru settar fram upplýsingar um veiðar á nytjategundum í fimm veiðarfæri (1. mynd). Heildarafli á tímabilinu 2000 til ársins 2014 var rúm 10000 tonn ef miðað er við upplýsingar úr gagnasafni Hafrannsóknastofnunar. Mest hefur fengist af rækju í firðinum vel yfir  5000 tonn á þessu tímabili en hún er veidd í rækjutroll. Næstmest hefur fengist af þorski og ýsu rúmlega  3500 tonn af hvorri tegund aðallega í dragnót og á línu. Afli í önnur veiðarfæri  hefur verið mun minni (1. mynd) aðallega þorskur á handfæri.

1. mynd. Afli í Arnarfirði eftir tegundum og veiðarfærum


Gerð var samantekt á skiptingu afla milli tegunda í Arnarfirði á tímabilinu 2000 til ársins 2014 og kom þá í ljós að aflahlutfall rækju er 41 %, þorsks er 29 % og ýsu 28 %. Af öðrum tegundum er afli um 2 % (2. mynd).


2. mynd. Hlutfall tegunda í afla í Arnarfirði.


Heimildir

Gagnagrunnur Hafrannsóknastofnunar


Stofnstærðarmat kúfskelja í ArnarfirðiKúfskel (Arctica islandica) (1. mynd) finnst nánast allt í kringum Ísland og lifir á 0-200 m dýpi í sendnum leirbotni, sandbotni eða skeljasandbotni. Skelin sem lifir niðurgrafin í sjávarbotninum allt frá því að vera rétt undir yfirborði og niður á 15 cm, er staðbundin en getur hreyft sig upp og niður í bontlaginu með hjálp fótarins. Kúfskelin er sérlega langlíf og hægvaxta dýrategund og getur orðið yfir 400 ára gömul. Skeljarnar eru sérkynja. Veiðar á kúfskel til beitu hafa verið stundaðar á Íslandi frá aldamótunum 1900 en tilraunaveiðar til manneldis hófust fyrst 1987 og svo aftur árið 1995 til útflutnings og var hámarks landaður afli rúm 14000 tonn árið 2003.

                         1. mynd Kúfskeljar (Arctica islandica). Mynd Guðrún G. Þórarinsdóttir
                                                                  


Snemma árs 1994 hófust rannsóknir á vegum Hafrannsóknastofnunar á kúfskel (1. mynd) við Vestfirði með það markmið að kortleggja útbreiðslu, magn á flatareiningu og stofnstærð í fjörðunum með nýtingu í huga. Einnig voru skeljar úr afla lengdarmældar og vigtaðar.

Til rannsóknanna var notaður skelveiðibátur útbúinn vatnsþrýstiplógi (2. mynd). Þess ber að geta að vatnsþrýstiplógurinn veiðir aðallega skeljar stærri en 50 mm og eykst veiðigetan eftir því sem skelin er stærri.

                                                       2. mynd. Losun vantsþrýstiplógs. Mynd: Guðrún G. Þórararinsdóttir

 Kort yfir rannsóknastöðvarÍ norðanverðum Arnarfirði vor tekin 7 tog tog á 0,3 km2 svæði (3.mynd) og var lífþyngdin að meðaltali 3,3 kg/m2 og stofnstærðin um 1000 tonn á svæðinu. Í sunnanverðum firiðinum voru 19 tog tekin, á 0,7 km2 svæði (3.mynd) og var lífþyngdin að meðaltali 4,5 kg/m2 og stofnstærðin áætluð um 3500 tonn á svæðinu. Úti fyrir firðinum voru tekin 24 tog á 7,5 km2 svæði (3. mynd), lífþyngdin 2 kg/m2 og var stofnstærðin áætluð um 16000 tonn.

Meðallengd skelja í afla var 74 og 77 mm í norðan- og sunnanverðum firðinum og lengdardreifingarnar 11-94 mm (4. mynd) og 12-107 mm (5. mynd). Meðalþyngd skeljanna var 118 gr og 132 gr  að norðan og sunnan og holdfyllingin 25%. Úti fyrir Arnarfirði var meðalleng skelja 72 mm, lengdardreifingin 20-98 mm (6. mynd), meðalvigt 117 gr, holdfyllingin 28%.


4. mynd Lengdardreifing kúfskelja í norðanverðum Arnarfirði5. mynd. Lengdardreifing kúfskelja í sunnanverðurm Arnarfirði


                                            


6. mynd. Lengdardreifing kúfskelja utan Arnarfjarðar

Heimildir

Gudrún G. Þórarinsdóttir & Sólmundur Einarsson, 1994. Kúfskeljarannsókn (Arctica islandica) á Norðvesturlandi janúar til mars 1994 (Investigation of Arctica islandica in Northwest Iceland, January-March 1994).  Hafrannsóknastofnunin, 29 pp.

Gudrún G. Þórarinsdóttir & Sólmundur Einarsson, 1997. Kúfskel við Ísland.  Náttúrufræðingurinn, 66 (2), 91-100. 

G. G. Thórarinsdóttir & S. Einarsson, 1996. Distribution and abundance of ocean quahog, Arctica islandica (Linnaeus, 1767), from Icelandic waters.  J. Shellf. Res. 15 (3), 729-733.


Rækjurannsóknir í Arnarfirði

Hafrannsóknastofnun hefur farið í staðlaða rækjukönnun að hausti í Arnarfirði árlega frá 1988 til að meta stofnvísitölu rækju. Tekin hafa verið 22 föst tog í firðinum (1. mynd). Þegar togstöðvar voru valdar var staðsetning þeirra byggð á reynslu sjómanna og á niðurstöðum fyrri rannsókna, en kannanir hafa farið fram allt frá árinu 1973 í Arnarfirði. M.a. var tekið tillit til afla og mestrar útbreiðslu rækjunnar. Til að tryggja samanburð milli ára er nauðsynlegt að staðla rækjukönnunina og það fellst meðal annars í að nota sömu staðsetningu togstöðva á hverju ári.

Rækjutog Hafró í Arnarfirði 1. mynd. Árleg rækjutog Hafrannsóknastofnunar að hausti í Arnarfirði

Helstu veiðislóðir og sögulegt hegðunarmynstur rækju í Arnarfirði

Rækjuveiðar hófust í Arnarfirði á 4. áratug síðustu aldar og hafa rækjuveiðar verið stundaðar samfellt í firðinum frá þeim tíma. Undanskildar eru þó vertíðirnar 2005/2006 og 2006/2007 þegar rækjustofninn var í mikilli lægð. Þegar stöðluð rækjukönnun hófst (1988) var rækja dreifð um allan Arnarfjörð. Á þeim tíma var rækja veidd í öllum firðinum (2. mynd). Þegar þorskur og ýsa fóru að koma í meira mæli inní fjörðinn (1996) þá hörfaði rækjan innar í fjörðinn og um aldamótin (2000) takmarkaðist útbreiðslusvæði rækju að hausti til að mestu leiti við innanverðan fjörðinn (2. mynd). Á síðustu árum hefur útbreiðslan minnkað enn meir og á tímabilinu frá 2004-2007 fannst rækja nánast eingöngu í Borgarfirði. Síðustu ár hefur töluverð rækja einnig fundist í Suðurfjörðunum í haustkönnun rækjurannsókna.

Rækjuafli í rannsóknum og veiðum 2. mynd. Rækjuafli í Arnarfirði í rannsóknum og veiðum frá 1990 til 2009.

Veiðisvæði rækju

Veiðisvæði rækju í Arnarfirði hefur verið í samræmi við útbreiðslu rækju í rækjukönnunum. Rækja var veidd um allan Arnarfjörð árið 1990. Þegar útbreiðslusvæði rækjunnar minnkaði voru rækjuveiðar einnig stundaðar á minna svæði en áður. Frá árinu 2004 hefur rækja að mestu verið veidd í mynni Borgarfjarðar og inni á Borgarfirði. Einnig var töluverð veiði í Suðurfjörðunum árið 2004 en datt svo aftur niður árin 2005-2008 en jókst síðan aftur frá árinu 2009. Veiðisvæði rækju (rækjutog) frá árinu 2008 til 2013 eru sýnd á 3. mynd en þessi gögn eru byggð á færslum úr VMS kerfum (Vessel Monitoring System) rækjubáta en á þessum árum voru veiðisvæði rækjubáta  mest á svæðum í Borgarfirði en einnig á Suðurfjörðum Arnarfjarðar.

Rækjuveiðar 3. mynd. Útbreiðsla rækjutoga veiðibáta (veiðisvæði)  frá 2008-2013                                                                                                                     

Eldi

Laxeldi

Fyrirtækið Arnarlax hefur leyfi fyrir ræktun á 3000 tonnum af laxi á ári á tveimur stöðum í Suðurfjörðum. Á árinu 2014 hófst eldið með útsetningu laxaseiða í kvíar.


Botnþörungar

Kalkþörungar.

Lifandi kalkþörungar finnast á botni með ströndum innarlega í Arnarfirði. Einnig finnst óvenju mikið af kalkþörungaseti sem er tilkomið vegna dauðra kalkþörunga. Lifandi kalkþörungar þurfa ljós eins og aðrar plöntur og geta því ekki lifað á meira en 30-40 m dýpi vegna ónógs sólarljóss. Mest er af þeim á 10 til 20 m dýpi. Þeir vaxa afar hægt eða aðeins fáeina millimetra á hverju ári og því er litið á búsvæði kalkþörunga sem afar viðkvæm svæði sem umgangast þarf með varúð. Rannsóknir sýna að kalkþörungasetið í firðinum nemur a.m.k. 21 milljón rúmmetra.

Kalkþörungaseti hefur verið dælt upp undanfarin ár úr Arnarfirði, allt að 82.500 m3 á ári. Því er landað á Bíldudal þar sem unnið er úr efninu í sérstakri verksmiðju en hún hefur leyfi til framleiðslu á allt að 57.000 tonnum á ári. Afurðir verksmiðjunnar eru steinefnafóður og jarðvegsbætiefni sem er pakkað til útflutnings.

Útbreiðslukort kalkþörunga í Arnarfirði er að finna í skýrslunni Nýtingaráætlun Arnarfjarðar, mynd 7.4. (sjá skýrslu Íslenska kalkþörungafélagsins).Botndýr

Efni í vinnslu


 

Útlit síðu:

imgban