Firðir og grunnsævi
Botn

Botn

Arnarfjörður er mjög sérstakur fjörður á íslenskan mælikvarða þar sem hann er einn af örfáum þröskuldsfjörðum sem finnast á Íslandi. Mynni hans er mun grynnra en innri hlutinn og nokkrir botnhryggir liggja þvert á fjörðinn alla leið inn í Borgarfjörð.

Botnkort

Gert hefur verið botnkort af Arnarfirði með fjölgeislamæli (sjá hlekk að mynd neðar). Slík kort eru mun nákvæmari en hefðbundin dýptarkort og gefa til kynna minnstu misfellur á botni. Guðrún Helgadóttir hefur haft veg og vanda af
fjölgeislamælingum á Hafrannsóknastofnuninni og gerð fjölgeislakorta. Á korti Arnarfjarðar má sjá að fjörðurinn er tiltölulega grunnur í mynni hans, þar sem er svokallaður þröskuldur eða grunn með dýpi kringum 50 m. Innan við mynnið er talsvert dýpra svæði þar sem mesta dýpi er rúmlega 100 metrar. Á milli Hvestu sunnan megin og Baulhúsaskriða norðan megin er annar þröskuldur þar sem dýpi er 60-70 m. Þar innan við er djúp sem nær alla leið inn í Suðurfirðina þar sem mesta dýpi er ríflega 100 m. Fyrir mynni innri hluta Arnarfjarðar, þar sem hann heldur áfram til austurs, er enn einn þröskuldur með dýpi 70 til 80 m en þar innan við er djúp langt inn eftir firði þar sem mesta dýpi er rúmlega 100 m. Enn innar í þessum anga Arnarfjarðar eru tveir hryggir með allmiklu dýpi á milli þeirra og einnig innan við þann innri. Þegar nálgast botn fjarðarins fer að grynnka þar sem heitir Borgarfjörður og Dynjandisvogur.


Fjölgeisladýptarmynd af Arnarfirði

Botngerð

Út frá gögnum sem safnað er með fjölgeislamælingum má vinna svo kölluð botnhörkukort sem gefa hugmynd um botngerðina þ.e. hvort botninn er mjúkur leirbotn eða harður hraunbotn. Slíkt kort af Arnarfirði má sjá hér fyrir neðan. Dekkstu svæðin tákna mestu botnhörku. Jökulgarðar eru auðgreinanlegir enda gerðir úr hörðu og grófu efni. Þeir þvera fjörðinn norðan við Hvestu og ganga út frá Langanesi. Einnig eru jökulgarðar í Borgarfirði. Skriður í hlíðum koma greinilega fram. Set, sem þekur meginhluta fjarðarbotnsins er ljósara á kortinu.
 

Botnhörkukort af Arnarfirði

  

Útlit síðu:

imgban