Almennt efni
Nytjar

Nytjar

Nytjar í fjörðum og við strendur landsins hafa verið margvíslegar í gegnum tíðina.

Veiðar hafa verið stundaðar á grunnsævi og fjörðum frá ómunatíð. Aðaláhersla veiða hefur verið á fisk en einnig eru veiðar stundaðar á botndýrum (skeljar, kuðungar og fleiri), rækju, og fyrr á tímum á selum, hvölum og fugli.

Fiskeldi hefur verið stundað í sjó á Íslandi í áratugi þó í mismiklum mæli sé. Einkum hefur það verið reynt í ýmsum fjörðum víða um land. Þær tegundir sem aðallega eru aldar í kvíum í sjó eru lax, regnbogasilungur og þorskur. Frá árinu 2004 hefur verið í gildi reglugerð sem bannar laxeldi við Vesturland og Norðurland að undateknum Eyjafirði, til að koma í veg fyrir smitun og blöndun eldislax við íslenska laxastofna. Laxeldi er hins vegar leyft á Vestfjörðum og Austfjörðum.

Eldi kræklings hefur verið reynt víða um land. Nú er svo komið að eldi á kræklingi fer fram í nokkrum mæli víða í fjörðum bæði sem atvinnurekstur og tilraunaeldi.

Nýting fjöruþörunga hefur verið nokkur bæði sem fjörubeit fyrir sauðfé, sem áburður í garða og tún en einnig til manneldis og má þar helst nefna sölvatínslu. Sölvafjörur voru áður fyrr taldar til hlunninda á jörðum. Fjörudýr, einkum skeljar, hafa verið nýtt af og til bæði til manneldis og til beitu við fiskveiðar. Kræklingur er algengasta skelin sem fólk tínir sér til matar.

 Efnistaka hefur verið stunduð í allmörgum fjörðum síðustu áratugina til að ná í byggingarefni. Einnig hefur verið tekið efni við árósa á mótum lands og sjávar.


 

Útlit síðu:

imgban