Almennt efni
Búsvæði

Búsvæði

Sjávarbotn

Hægt er að skilgeina þrjú megin búsvæði sjávarlífvera í fjörðum; fjörur, sjávarbotn og uppsjó. Fjörur eru allt í kringum landið og mynda strandlengjuna. Fjörur geta verið afar mismunandi , allt frá þverhníptum klettum til dúnmjúkrar leðju. Lífríkið er mismunandi eftir fjörugerðum og eins er lífríki sjávarbotnsins mismunandi eftir því hvernig botnlag og setgerð er þar að finna. Í uppsjónum má finna allt frá smæstu til hinna stærstu sjávarlífvera.

Sjávarbotninn er afar mikilvægt búsvæði fyrir margar tegundir sjávardýra. Ýmsir umhverfisþættir hafa áhrif á skiptingu botnsins í ólík búsvæði. Á grunnsævi ræður setgerð miklu um skiptingu botsins í ólík búsvæði og hvaða tegundir er að finna á þeim. Oft er botninum skipt upp í mjúkan botn og harðan. Það getur reynst erfitt að skilgreina hvaða botngerð er hvar, þar sem oft er um sambland af mjúkum og hörðum botni að ræða. Til dæmis finnst grjót stundum á leir eða sandbotni. Þannig getur tegundasamsetning botndýranna bæði verið dæmigerð fyrir harðan botn og einnig dæmigerð fyrir mjúkan botn. Þegar sýnum er safnað á slíku svæði getur verið erfitt að kveða upp úr með hvort um harðan botn sé að ræða eða mjúkan.

Mjúkur botn samanstendur af leir, sandi eða samblandi af þessu tvennu. Hann er yfirleitt gróðursnauður og einkennist lífríki hans af ífánu. Sléttur og mjúkur botn bera vott um frekar lygnan sjó og ekki mikið öldurót. Margar lífverur sem lifa á slíkum botni geta grafið sig niður og kallast þá ífána. Margar þeirra eru auk þess setætur og éta lífrænar leifar úr botninum. Flatfiskar eru algengir á mjúkum botni og krabbar og humar grafa holur í mjúkan botn.

Harðan botn er helst að finna neðan fjöru og þar sem mikið öldurót er. Lífríki á hörðum botni er gjarnan litríkara fyrir augað en lífríki á mjúkum botni. Hart undirlag veitir ýmsum lífverum gott undirlag þannig að að þau geta fest sig. Þari er dæmi um lífveru sem þarf fast undirlag og eru þaraskógar oft þar sem slíkur botn er. Þaraskógar skapa síðan gott búsvæði fyrir margar aðrar lífverur. Svampar, sæfíflar og möttuldýr eru dæmi um algeng dýr sem finnast á hörðum botni. Harður botn er oft flokkaður í malarbotn, grjótbotn, klöpp og hraun. Lífríki á þessum mismunandi botngerðum getur einnig verið ólíkt.

Sum veiðarfæri geta haft mikil áhrif á botninn og þar með búsvæði sjávardýra.

Sjá nánar á:http://www.hafro.is/undir.php?ID=16&REF=2
 

Útlit síðu:

imgban