Almennt efni
Botngerð

Kortlagning hafsbotnsins

Fjölgeislamælingar

 

Árið 2000 réðist stofnunin í viðamikið verkefni um kortlagningu hafsbotnsins í kjölfar tilkomu hafrannsóknaskipsins Árna Friðrikssonar RE 200, en skipið er búið fjölgeisladýptarmæli (e. multibeam echo sounder - Simrad EM 300, 30 kHz, 2°x2°). Með mælinum er hægt að kortleggja hafsbotninn af mun meiri nákvæmni en með hefðbundnum dýptarmæli. Tækið hentar best á 100 – 3000 metra dýpi. Upplýsingar fást um lögun og gerð hafsbotnsins með nákvæmum dýptarlínu-, sólskugga- og þrívíddarkortum auk botngerðarkorta.

Í áætlunum Hafrannsóknastofnunarinnar er áhersla lögð á að kortleggja valin svæði á ytri hluta landgrunnsins og í landgrunnshlíðum umhverfis landið. Kortlagningin er hugsuð sem grunnur fyrir aðrar athuganir stofnunarinnar; s.s. kortlagningu búsvæða, könnun fiskislóða og áhrif veiðarfæra á botn, athugun á ástandi sjávar og jarðfræði hafsbotns.

Fjölgeislamælingar hafa skipað sér fastan sess við rannsóknir Hafrannsóknastofnunarinnar á lífríki sjávar. Sem dæmi má nefna kortlagningu búsvæða kóralla sem gerð var við suðurkanta landgrunnsins vorið 2004 og kortlagningu friðaðra veiðisvæða og umhverfi þeirra norðaustur af Langanesi vorið 2005. Í þessum tilfellum var kortlagningin grunnur fyrir frekari athuganir, m.a. neðansjávarmyndatöku og söfnun sýna.


 

Útlit síðu:

imgban