Almennt efni
Botngerð

Botngerð

Ísland hvílir á mótum tveggja neðansjávarhryggja. Annar þeirra er Mið-Atlantshafshryggurinn sem liggur eins og ormur eftir endilöngu Atlantshafi. Hann kemur að landgrunninu fyrir suðvestan Reykjanes og kallast þar Reykjaneshryggur. Norður af landinu heldur Mið-Atlantshafshryggurinn áfram fyrir norðan Kolbeinsey, í átt til Jan Mayen og er sá hluti nefndur Kolbeinseyjarhryggur. Þvert á Mið-Atlantshafshrygginn er Grænlands-Skotlandshryggurinn sem eins og nafnið bendir til liggur milli Grænlands og Skotlands.

Umhverfis landið er víðáttumikið landgrunn. Út frá landinu smádýpkar út að landgrunnsbrún. Landgrunnið er breiðast vestur af landinu. Mjóst er það við suðurströndina og eru þar sums staðar ekki nema nokkrar sjómílur frá ströndinni út að landgrunnsbrún. Inn í landgrunnið skerast álar eða djúp sem oft virðast vera framhald fjarða og flóa landsins.

Almennt má segja að í djúpum og álum sé fínt set, leir eða fínn sandur. Uppi á grunnunum er botninn harðari, ýmist er þar grófur sandur eða klöpp. Grunnt með landinu er jafnan harður botn þar sem landið er fyrir opnu hafi, en í botni flóa og fjarða er fínna efni, sandur eða leir. Meðfram allri suðurströndinni er þó sandur næst landi. Á landgrunninu út af Vestfjörðum er lítið um fínt set á botni og stafar það meðal annars af því að þar eru engar stórar ár sem bera set til sjávar.

Úr bókinni „Sjávarnytjar við Ísland”, Karl Gunnarsson, Gunnar Jónsson og Ólafur Karvel Pálsson, 1998. 

Útlit síðu:

imgban